Lífið

Hjólað, synt og hlaupið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þetta tekur í,“ segir Ólafur um þríþrautina.
"Þetta tekur í,“ segir Ólafur um þríþrautina. Vísir/Stefán
Ólympíska þríþrautin er strembin. Það er synt í Laugarvatninu 1.500 metra, hjólað 40 kílómetra og svo hlaupið 10 kílómetra. Klukkan fer í gang um leið og fólk fer út í vatnið og stoppar um leið og hlaupinu er lokið. Engar pásur á milli, þetta tekur vel í,“ segir Ólafur Gunnarsson, formaður félagsins Ægir3 sem heldur svokallaða Laugarvatnsþríþraut í fyrramálið. Hann er að taka þátt í henni í fyrsta skipti en talar af reynslu, kveðst hafa tekið þátt í öðrum mótum hér á landi og undirbýr sig fyrir keppni í Iron Man í Danmörku í ágúst.

Ólafur kveðst stunda þríþraut vegna fjölbreytni í æfingum, til að fá góða hreyfingu og vera í skemmtilegum félagsskap. „Ég legg áherslu á að hjóla á sumrin og hlaupa á veturna. Þegar ég byrjaði í þríþraut haustið 2015 var ég algjörlega ósyndur og sundið er enn mín slakasta grein. En Laugarvatn er frábært til að synda í, það er grunnt og nokkuð volgt miðað við vötn á Íslandi.“

Mótið á morgun er Íslandsmeistaramót og í fyrsta skipti úrtökumót fyrir heimsmeistarakeppni. „Hingað til hefur ekki verið svo mikil ásókn í heimsmeistarakeppnina að þurft hafi úrtökumót en þríþrautin sækir í sig veðrið og verður æ vinsælli meðal fólks á öllum aldri,“ lýsir Ólafur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×