Formúla 1

Renault: Stórar breytingar á vélinni bíða til 2018

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Abiteboul og Horner ræða málin.
Abiteboul og Horner ræða málin. Vísir/Getty
Renault mun ekki kynna til sögunnar stórar uppfærslur á Formúlu 1 vél sinni fyrr en á næsta ári samkvæmt Cyril Abiteboul, yfirmanni kappakstursmála hjá Renault.

Renault kynnti nýja nálgun í upphafi árs sem átti að veita möguleika á miklum framförum en Abiteboul segir að lítil skref verði tekin keppni fyrir keppni. Engar stórar uppfærslur muni koma fyrr en á næsta ári.

Þessi staðhæfing Abiteboul fer gegn orðum Christian Horner, liðsstjóra Red Bull liðsins, sem notar Renault vélar. Horner sagði að ætlunin hefði verið að uppfæra vélina mikið fyrir kanadíska kappaksturinn en því hafi nú verið frestað til Aserbadjían, sem er næsta keppni.

„Það eru að koma uppfærslur fyrir hverja keppni, við náum smáum framfararskrefum hverja keppnishelgi. Í fyrra sköpuðum við miklar væntingar og við kynntum uppfærslu sem hafði gríðarlega mikil áhrif. Við getum ekki endurtekið það á hverju ári,“ sagði Abiteboul í samtali við Formula1.com.

„Hreint út sagt mun næsta stóra uppfærsla koma á næsta ári. Þá munum við koma fram með nýja hugsjón. Það mun breyta ýmsu en eins og ég sagði, þá verður það 2018,“ sagði Abiteboul að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×