Viðskipti innlent

Kaupverð Festar yfir markaðsvirði Haga

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Festi rekur meðal annars sautján Krónuverslanir.
Festi rekur meðal annars sautján Krónuverslanir. Vísir/Vilhelm
Kaupverð olíufélagsins N1 á Festi, næststærstu smásölukeðju landsins, er rúmlega 20% hærra en verð Haga á markaði ef miðað er við hefðbundna verðkennitölu. Á þetta er bent í viðbrögðum sérfræðinga Capacent við kaupunum.

Þeir benda jafnframt á að samkvæmt síðasta verðmati sínu á Högum, helsta keppinauti Festar, sé félagið verulega undirverðlagt á markaði. Taka ber þó fram að umrætt verðmat var unnið áður en Costco opnaði verslun sína í Kauptúni og er því líklegt að verðmat Haga lækki eftir annan fjórðung ársins.

N1 tilkynnti um fyrirhuguð kaup sín á Festi, sem rekur meðal annars verslanir Krónunnar og Elko, fyrr í mánuðinum. Kaupverðið nemur 8.750 milljónum króna og er heildarvirði Festar metið á 37.900 milljónir króna í viðskiptunum. Rekstrarhagnaður Festar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, svonefnt EBITDA, er áætlaður um 3.340 milljónir króna árið 2016.

Fram kemur í viðbrögðum Capacent við kaupunum að svonefnt EV/EBITDA-hlutfall, þ.e. rekstrarhagnaður sem hlutfall af heildarvirði, fyrir Festi sé 11,3 ef miðað er við uppgefið kaupverð á félaginu. Sama hlutfall hjá Högum er hins vegar 9,3. Það þýðir með öðrum orðum að kaupverð Festar er umtalsvert hærra en núverandi markaðsverð Haga.


Tengdar fréttir

Sextíu milljóna króna styrkur vegna vatnsleka

Borgarráð samþykkti á fimmtudag tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að veita íþróttafélaginu Víkingi sextíu milljóna króna styrk til að gera við kjallara í húsnæði félagsins í Fossvogi eftir verulegt vatnstjón sem varð þar vor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×