Innlent

Rigningin hluti af deginum

Mikið var um að vera í miðborginni í dag þar sem haldið var upp á þjóðhátíðardag Íslendinga. Þeir allra hörðustu létu rigninguna ekki á sig fá og spókuðu sig um í bænum.

Óhætt er að segja að veðrið hafi sett nokkurt strik í reikninginn í dag en úrhellisrigning var á tímabili. Veðurguðirnir virtust ráða mestu um fólksfjöldann á hátíðarsvæðinu við Hljómskálagarðinn þar sem svæðið ýmist tæmdist eða fylltist eftir því hvort regnið streymdi niður. Sumir fögnuðu því hins vegar bara þar sem minni raðir voru í tækin.

Skipuleggjandi segir hátíðarhöldin hafa gengið vel og var sérstaklega ánægður með Stuðmenn sem ráku skrúðgönguna sem lá frá Barónsstíg og niður í Hljómskálagarð.

„Stemningin hefur bara verið nokkuð góð. Fólk er aðeins farið að hlaupa í burtu af því að það var rigning í tuttugu mínútur hjá Stuðmönnum en ég held að fólk hafi bara komið með regnhlífar með sér," segir Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjóri hjá Höfuðborgarstofu.

Flestir sem voru á annað borð mættir voru þó sammála um að rigningin væri ekkert stórmál og einungis hluti af þjóðhátíðardeginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×