Innlent

Fangageymslur lögreglu fullar eftir nóttina

Kjartan Kjartansson skrifar
Fullt hús var í fangageymslu lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu.
Fullt hús var í fangageymslu lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu. Vísir/GVA
Mikill erill hefur verið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og eru fangageymslur hennar á Hverfisgötu og í Hafnarfirði fullar. Nokkuð var um fíkniefnamál í Laugardalnum þar sem tónlistarhátíðin Secret Solstice er haldin.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að átján manns hafi gist fangageymslurnar í Hafnarfirði og á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

Maðurinn sem braust inn í bílaleigu á Höfða í gærkvöldi var handtekinn við annað brot síðar um kvöldið í Breiðholti. Hann hafði brotið rúðu hjá bílaleigunni, farið inn um glugga og stolið bíllyklum.

Innbrotþjófurinn skarst hins vegar á höndum við innbrotið og var töluvert blóð á vettvangi. Þegar hann var handtekinn fundust bíllyklarnir í fórum hans. Hann fékk að gista fangageymslu í nótt.

Sex manns teknir með fíkniefni á 40 mínútna tímabili

Í Laugardalnum var nokkuð um fíkniefnabrot. Þannig hafði lögreglan afskipti af manni á tjaldstæðinu þar vegna vörslu fíkniefna og 16 ára gamalli stúlku, sömuleiðis vegna fíkniefna.

Á fjörutíu mínútna tímabili á milli 21:21 og 22:09 höfðu lögreglumenn afskipti af sex einstaklingum til viðbótar í Laugardalnum sem voru með fíkniefni í fórum sínum.

Ekki kemur beint fram í dagbók lögreglunnar að málin tengist Secret Solstice.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×