Handbolti

Aron: Eigum harma að hefna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron og félagar ætla sér sigur í kvöld.
Aron og félagar ætla sér sigur í kvöld. vísir/ernir
Aron Pálmarsson segir að leikmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta séu staðráðnir í að vinna það úkraínska í kvöld og tryggja sér þar með sæti á EM.

„Það er bara eitt sem kemur til greina og það er sigur. Það er flott að fá þennan auka séns og við erum gríðarlega ánægðir með það. Við tökum þennan séns,“ sagði Aron í samtali við Vísi.

„Ég býst við og vona að það verði full höll og við gerum þetta að góðum degi.“

Íslenska liðið náði sér ekki á strik í tapinu fyrir því tékkneska í Brno á miðvikudaginn. En hvað þurfa strákarnir okkar að laga fyrir leikinn í kvöld?

„Sóknarnýtinguna og ákvarðanatökur í sókn. Það voru sumir hlutir sem við gerðum mjög vel en markvarslan þarf að koma betur inn. Við skoruðum mikið úr hröðum sóknum sem er jákvætt. Við þurfum að fínpússa sóknarleikinn og þá eigum við að fá sigur,“ sagði Aron.

Hann varar við vanmati enda tapaði Ísland fyrri leiknum gegn Úkraínu í Sumy.

„Þetta er pínu óþægilegt lið. Maður þekkir ekki marga leikmenn þarna en þeir eru frekar seigir og spila þétt. Það var óþægilegt að mæta þeim úti við ömurlegar aðstæður. Þeir hafa sýnt það í þessum riðli að þeir eiga fullt erindi í þessar stærstu þjóðir,“ sagði Aron.

„Við getum ekkert vanmetið þá, við töpuðum fyrir þeim síðast og eigum harma að hefna. Við ætlum svo sannarlega að hefna fyrir þetta tap í Úkraínu.“

Leikur Íslands og Úkraínu hefst klukkan 18:45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

Þurfum að nýta heimavöllinn

Íslenska karlalandsliðið í handbolta er einum sigri frá því að tryggja sér sæti á tíunda Evrópumótinu í röð. Annað kvöld mæta íslensku strákarnir ólseigum Úkraínumönnum sem unnu fyrri leik liðanna ytra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×