Enski boltinn

Barton ósáttur við lengd bannsins: Fékk lengra bann en Suarez og Terry

Elías Orri Njarðarson skrifar
Joey Barton kemur sér reglulega í vandræði
Joey Barton kemur sér reglulega í vandræði visir/epa
Joey Barton, fyrrum leikmaður Burnley í ensku úrvalsdeildinni, telur að bannið sem hann fékk fyrir að veðja á knattspyrnuleiki hafi verið ósanngjarnt.

Barton fékk 18 mánaða bann frá knattspyrnu eftir að hafa veðjað á alls 1260 leiki á tíu ára tímabili. Meðal annars hafði Barton verið að veðja á leiki sem hann sjálfur var að spila.

Í viðtali við Sunday Times segir Barton að bannið sé alltof hart miðað við leikbönn sem aðrir leikmenn hafi fengið í gegnum tíðina.

„Luis Suarez er með kynþáttaníð í garð Patrice Evra. Hann bítur annan leikmann,“ sagði Barton.

Suarez fékk átta leikja bann fyrir kynþáttaníð í garð Evra og tíu leikja bann fyrir að bíta Branislav Ivanovic, varnarmann Chelsea, í leik liðanna í apríl árið 2013.

Barton minnist einnig á bann sem John Terry fékk fyrir kynþáttaníð í garð Anton Ferdinand, þáverandi leikmanns QPR á Englandi árið 2012, en Terry fékk fjögurra leikja bann.

„Kung-fu sparkið hjá Cantona, það var níu mánaða bann, segjum 48 leikir. Ég fæ þetta allt á einu bretti. Ég hef í rauninni kung-fu sparkað í áhorfanda, verið með kynþáttaníð í garð tveggja leikmanna og bitið annan til viðbótar og meira en það - í augum enska knattspyrnusambandsins,“ segir Barton óánægður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×