Enski boltinn

Barton ósáttur við lengd bannsins: Fékk lengra bann en Suarez og Terry

Elías Orri Njarðarson skrifar
Joey Barton kemur sér reglulega í vandræði
Joey Barton kemur sér reglulega í vandræði visir/epa

Joey Barton, fyrrum leikmaður Burnley í ensku úrvalsdeildinni, telur að bannið sem hann fékk fyrir að veðja á knattspyrnuleiki hafi verið ósanngjarnt.

Barton fékk 18 mánaða bann frá knattspyrnu eftir að hafa veðjað á alls 1260 leiki á tíu ára tímabili. Meðal annars hafði Barton verið að veðja á leiki sem hann sjálfur var að spila.

Í viðtali við Sunday Times segir Barton að bannið sé alltof hart miðað við leikbönn sem aðrir leikmenn hafi fengið í gegnum tíðina.

„Luis Suarez er með kynþáttaníð í garð Patrice Evra. Hann bítur annan leikmann,“ sagði Barton.

Suarez fékk átta leikja bann fyrir kynþáttaníð í garð Evra og tíu leikja bann fyrir að bíta Branislav Ivanovic, varnarmann Chelsea, í leik liðanna í apríl árið 2013.

Barton minnist einnig á bann sem John Terry fékk fyrir kynþáttaníð í garð Anton Ferdinand, þáverandi leikmanns QPR á Englandi árið 2012, en Terry fékk fjögurra leikja bann.

„Kung-fu sparkið hjá Cantona, það var níu mánaða bann, segjum 48 leikir. Ég fæ þetta allt á einu bretti. Ég hef í rauninni kung-fu sparkað í áhorfanda, verið með kynþáttaníð í garð tveggja leikmanna og bitið annan til viðbótar og meira en það - í augum enska knattspyrnusambandsins,“ segir Barton óánægður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira