Innlent

Mosfellingar gáfu langömmum rós þegar þær komu í mark

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Harðduglegir hlaupagarpar á öllum aldri í Kvennahlaupinu.
Harðduglegir hlaupagarpar á öllum aldri í Kvennahlaupinu. Íþrótta-og ólympíusamband Íslands
Mosfellingar höfðu þann háttinn á að gefa öllum langömmum rós þegar þær komu mark á Kvennahlaupinu. Um 10.000 konur tóku þátt í Sjóvá Kvennahlaupi ÍSÍ í dag. Tekið var þátt á yfir 80 stöðum víðsvegar um landið og er þetta í tuttugasta og áttunda sinn sem kvennahlaupið fer fram. Í tilkynningu frá Íþrótta-og ólympíusambandi Íslands er tekið fram að konur séu konum bestar. Góð stemning var í vel sóttu Kvennahlaupi.

Markmið Kvennahlaupsins er að vekja áhuga kvenna á reglulegri hreyfingu og lögð er áhersla á það að hver og einn þátttakandi komi í mark á sínum hraða.

Þrátt fyrir að hlaupið hafi í upphafi verið ætlað konum eru karlmenn einnig boðnir velkomnir. Margir strákar hlupu í dag.

Í Kvennahlaupinu í Garðabæ, þar sem tvö þúsund konur hlupu, var elsta hlaupara veitt viðurkenning eins og hefð er fyrir. Sólveig Alda Pétursdóttir, sem fædd er 1925, fékk afhentan grip sem ÍSÍ og Stjarnan gáfu til minningar um Lovísu Einarsdóttur, íþróttakennara og upphafskonu Kvennahlaupsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×