Handbolti

Ólafur: Höfum verið upp og niður sem lið

Elías Orri Njarðarson skrifar
Ólafur skoraði fimm mörk í kvöld.
Ólafur skoraði fimm mörk í kvöld. vísir/anton
Ólafur Guðmundssom átti góðan leik í dag með þegar að íslenska landsliðið í handbolta mætti því úkraínska í Laugardalshöll í dag.



„Þetta var flottur leikur og sérstaklega í ljósi þess að það var mikið undir í kvöld. Við litum vel út sóknarlega, varnarlega og fengum hraðarupphlaup. Þetta var heilsteyptur leikur, flottur handbolti að mér fannst og gaman að sjá að við erum að stíga upp þegar á þarf og ég er bara gríðarlega stoltur af liðinu,“ sagði Ólafur.

Seinasti leikur landsliðsins fyrir þennan leik var bragðdaufur leikur á móti Tékkum úti, leikurinn endaði með 27-24 tapi og gagnrýnisraddir voru háværar eftir leikinn í Tékklandi.

„Við vorum ekki góðir í Tékklandi - það er alveg ljóst. Mér fannst við spila fínan leik á móti Makedóníu hérna heima, við skiluðum því hlutverki ágætlega. Hvort sem að það er gagnrýni á mig eða einhvern annan þá höfum við bara verið upp og niður sem lið. Þetta er ungt lið og sveiflukennt gengi fylgir því. En þegar það á reyndi þá stigu allir upp og við áttum frábæran leik í kvöld,“ sagði Ólafur Guðmundsson.

Varnarleikur Íslands var mjög góður í kvöld og sóknarleikurinn líka. Liðið hafði undirbúið sig mjög vel fyrir leikinn í kvöld. „Það voru búnir að vera svolítið margir vídeó-fundir seinustu tvo daga fyrir leikinn og það höfðu allir í liðinu hlutverk sitt á hreinu. Það var ekkert sem kom okkur á óvart sem þeir gerðu og við vorum bara mjög vel undirbúnir,“ sagði Ólafur sem skoraði fimm mörk og spilaði vel í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×