Viðskipti innlent

Skýri tuttugu milljóna bónus í Framtakssjóði

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands
Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands
Gildi – lífeyrissjóður óskar skýringa frá stjórn Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) á tuttugu milljóna króna bónusgreiðslu sem Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri FSÍ, fékk frá sjóðnum í fyrra. Gildi var ókunnugt um umrædda greiðslu, að sögn Árna Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Gildis.

Gildi er þriðji stærsti hluthafi Framtakssjóðsins með 16,5 prósenta hlut.

Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna stærsta hluthafa Framtakssjóðsins með 19,9 prósenta hlut, segist ekki þekkja efni samnings FSÍ við Herdísi. Hún hafi fyrst frétt af greiðslunni í fjölmiðlum. Stjórn lífeyrissjóðsins komi saman í vikunni og þar beri málið örugglega á góma.

Eins og greint var frá í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í síðustu viku var greiðslan til Herdísar hluti af uppgjöri á samningi sem Framtakssjóðurinn gerði við hana árið 2013. Á þeim tíma sat enginn frá lífeyrissjóðunum í stjórn FSÍ.

„Það var gerður samningur við hana árið 2013 um að ef hún yrði áfram starfandi hjá sjóðnum árið 2016, þá kæmi til þessarar aukagreiðslu sem yrði gerð upp 2016,“ sagði Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður FSÍ. Markmiðið hefði verið að hvetja hana til þess að starfa áfram hjá sjóðnum.





Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis – lífeyrissjóðs
Þess má geta að greiðslan sem Herdís fékk hefði ekki verið heimil samkvæmt lögum sem gilda um kaupaukagreiðslur til starfsmanna fjármálafyrirtækja. Samkvæmt þeim mega kaupaukar ekki vera hærri en 25 prósent af árslaunum starfsmanns. Framtakssjóðurinn er hins vegar ekki fjármálafyrirtæki í skilningi laganna.

Samkvæmt ársreikningi Framtakssjóðsins fékk Herdís 48,5 milljónir króna í laun og hlunnindi í fyrra. Hækkaði greiðslan um 78 prósent, eða sem nemur umræddri aukagreiðslu, á milli ára. Til samanburðar námu árslaun Árna hjá Gildi um 28 milljónum og þá fékk Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR stærsta lífeyrissjóðs landsins, samtals 26 milljónir í laun á árinu 2016.

Herdís var ráðin framkvæmdastjóri sjóðsins í mars árið 2014 en áður hafði hún starfað þar sem fjárfestingastjóri frá 2010.

Framtakssjóðurinn er í eigu sextán lífeyrissjóða auk Landsbankans og tryggingafélagsins VÍS.

Ekki náðist í Herdísi við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×