Erlent

Keyrt á hóp fólks í London

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi atviksins.
Frá vettvangi atviksins. Vísir/AFP

Keyrt var inn í hóp af fólki í London nú í kvöld. Einn hefur verið handtekinn og segja vitni að hann hafi verið hvítur á hörund. Lögreglan segir atvikið vera mjög alvarlegt. Múslimaráð Bretlands segir að ekið hafi verið á biðjendur þegar þeir yfirgáfu mosku eftir bænir í norðausturhluta London. Vitni segja fjölda fólks hafa legið í götunni eftir að bílnum var ekið inn í hóp fólks.

Lögreglan segir of snemmt að segja hvort að um hryðjuverk sé að ræða.

Myndir af vettvangi gefa í skyn að einhverjir séu mjög alvarlega slasaðir, samkvæmt Sky News. CNN ræddi við íbúa á svæðinu sem segist hafa séð fólk framkvæma endurlífgunartilraunir á fólki sem varð fyrir bílnum.

Auk þess sem hefur verið handtekinn segja vitni að tveir aðrir menn hafi verið í bílnum og að þeir hafi hlaupið á brott. Það hefur þó ekki fengist staðfest. Sá sem var handtekinn mun hafa verið stöðvaður og handsamaður af fólki á götunni eftir atvikið.Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir að svo stöddu, en lögreglan í London hefur sent fjölda lögregluþjóna á vettvang. Sjónarvottar segja minnst tíu hafa slasast, en yfirvöld hafa ekki gefið út staðfestar tölur.

Þann þriðja júní létu átta lífið og 50 særðust þegar þrír menn keyrðu á fólk á London brúnni og stungu fólk á nærliggjandi veitingastöðum. Þá Keyrði maður á fólk á Westminster brúnni þann 22. mars. Fimm létu lífið. Þar að auki létu 22 lífið þann 22. maí þegar maður sprengdi sig í loft upp á tónleikum í Manchester.

Sjá má beina útsendingu Sky News hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira