Innlent

Ölvaður ók á hús í Hafnarfirði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það var í nógu að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.
Það var í nógu að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Vísir/Andri Marinó

Um klukkan hálftólf í gærkvöldi var tilkynnt um óhapp við Sléttuhraun í Hafnarfirði þar sem bifreið hafði verið ekið á hús. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur að því er fram kemur í dagbók lögreglu og var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls að lokinni sýnatöku.

Þá var tilkynnt um líkamsárás við veitingahús í Hafnarfirði um klukkan 21:15 í gærkvöldi og var maðurinn handtekinn og færður í fangageymslu vegna málsins.

Alls voru sextán fíkniefnamál skráð í Laugardalnum frá klukkan 18:30 í gærkvöldi og þar til klukkan þrjú í nótt en lokakvöld tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice fór fram dalnum í gær.

Upp úr klukkan tvö í nótt var svo tilkynnt um umferðaróhapp þar sem ekið hafði verið á kyrrstæða bifreið í Laugardal en ökumaðurinn hafði keyrt af vettvangi. Hann var handtekinn skömmu síðar grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Að lokinni sýnatöku var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.

Þá voru fimm teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna auk þess sem tilkynnt var um umferðaróhapp í Breiðholti um klukkan 19:45 þar sem ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur.

Rúmlega 22 var síðan tilkynnt um innbrot í bifreið í Mosfellsbæ þar sem hurðarlæsing hafði verið skemmd, munum stolið úr bílnum auk skráningarmerkjanna.  Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira