Innlent

Ölvaður ók á hús í Hafnarfirði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það var í nógu að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.
Það var í nógu að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Vísir/Andri Marinó

Um klukkan hálftólf í gærkvöldi var tilkynnt um óhapp við Sléttuhraun í Hafnarfirði þar sem bifreið hafði verið ekið á hús. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur að því er fram kemur í dagbók lögreglu og var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls að lokinni sýnatöku.

Þá var tilkynnt um líkamsárás við veitingahús í Hafnarfirði um klukkan 21:15 í gærkvöldi og var maðurinn handtekinn og færður í fangageymslu vegna málsins.

Alls voru sextán fíkniefnamál skráð í Laugardalnum frá klukkan 18:30 í gærkvöldi og þar til klukkan þrjú í nótt en lokakvöld tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice fór fram dalnum í gær.

Upp úr klukkan tvö í nótt var svo tilkynnt um umferðaróhapp þar sem ekið hafði verið á kyrrstæða bifreið í Laugardal en ökumaðurinn hafði keyrt af vettvangi. Hann var handtekinn skömmu síðar grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Að lokinni sýnatöku var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.

Þá voru fimm teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna auk þess sem tilkynnt var um umferðaróhapp í Breiðholti um klukkan 19:45 þar sem ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur.

Rúmlega 22 var síðan tilkynnt um innbrot í bifreið í Mosfellsbæ þar sem hurðarlæsing hafði verið skemmd, munum stolið úr bílnum auk skráningarmerkjanna.  
Fleiri fréttir

Sjá meira