Enski boltinn

Chelsea tilbúið að borga tólf milljarða fyrir tvo leikmenn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Antonio Conte er að missa fyrirliðann sinn og mögulega Diego Costa.
Antonio Conte er að missa fyrirliðann sinn og mögulega Diego Costa. vísir/getty

Chelsea hefur verið ansi rólegt á leikmannamarkaðnum í byrjun sumars en það er eitthvað sem hefur farið illa í Antonio Conte eins og greint var frá í síðustu viku.

Roman Abramovic og hans menn á Stamford Bridge virðast eitthvað vera að ranka við sér ef marka má frétt The Guardian í dag en þar segir að félagið sé að taka tólf milljarða út úr hraðbankanum til að kaupa tvo leikmenn.

Þetta eru Alex Sandro, vinstri bakvörður Ítalíumeistara Juventus, og Tiemoué Bakayoko, miðjumaður Frakklandsmeistara Monaco sem báðir slógu í gegn í Meistaradeildinni í vetur.

Chelsea er sagt ætla að gera Juventus 55 milljóna punda tilboð í hinn 26 ára gamla Alex Sandro og Monaco fær tilboð upp á 40 milljónir í hinn 22 ára gamla Bakayoko sem fyrst varð lykilmaður hjá franska liðinu á síðustu leiktíð.

Bakayoko spilaði sinn fyrsta A-landsleik fyrir Frakkland í mars en hann á leiki fyrir öll yngri landslið Frakklands. Alex Sandro er Brasilíumaður sem kom til Juventus frá Porto en hann á sjö landsleiki að baki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira