Handbolti

Ísland í neðsta styrkleikaflokki fyrir EM 2018

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron brýst í gegnum vörn Úkraínu.
Aron brýst í gegnum vörn Úkraínu. vísir/anton

Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í handbolta eru í fjórða styrkleikaflokki fyrir dráttinn til riðlakeppni EM 2018 í Króatíu en dregið verður á föstudaginn.

Íslenska liðið komst fjallabaksleiðina á mótið með því að vinna Úkraínu sannfærandi í Laugardalshöll í gær. Ísland hafnaði í þriðja sæti í sínum riðli en var með bestan árangur allra liða í þriðja sæti.

Sjá einnig: Þessi lið komust á EM í Króatíu

Styrkleikaflokkarnir gefa kannski ekki beint rétta mynd af styrkleika liðanna þar sem frábært lið Slóveníu til dæmis með Íslandi í fjórða styrkleikaflokki en Hvíta-Rússland er í öðrum styrkleikaflokki.

Patrekur Jóhannesson og hans menn í austurríska liðinu eru með Ungverjum, Slóvenum og okkur Íslendingum í fjórða flokknum og geta því lent í ansi erfiðum riðli á mótinu eins og strákarnir okkar.

Annað mjög sérstakt við riðlakeppnina í Króatíu er að búið er að ákveða að Króatar spila sína leiki í A-riðli í Split, Noregur (2. styrkleikaflokkur) verður í B-riðli í Porec, Slóvenar í C-riðli í Zagreb og Ungverjar í D-riðli í Varazdin.

Króatía og Noregur geta því ekki mæst í riðlakeppninni en strákarnir okkar gætu til dæmis lent í riðli með Króatíu, Svíþjóð og Serbíu.

Hagstæður riðill gæti til dæmis verið Þýskaland, Hvíta-Rússland og Tékkland en það kemur allt í ljós þegar dregið verður á föstudaginn.

Styrkleikaflokkar fyrir EM 2018:
1. flokkur: Þýskaland, Spánn, Króatía, Frakkland
2. flokkur: Danmörk, Hvíta-Rússland, Svíþjóð, Makedónía
3. flokkur: Noregur, Serbía, Svartfjallaland, Tékkland
4. flokkur: Ungverjaland, Slóvenía, Austurríki, Ísland


Tengdar fréttir

Fóru fjallabaksleiðina á EM

Strákarnir okkar verða með á EM í Króatíu í upphafi næsta árs. Það varð ljóst eftir sannfærandi sigur á Úkraínu, 34-26. Þetta var hreinn úrslitaleikur um sæti á EM og pressan dró fram það besta í íslenska liðinu.

Guðjón Valur: Ekki hægt að fara á betri hátt í frí

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, var að vonum mjög ánægður með flottan átta marka sigur á Úkraínu, 34-26, í Laugardalshöll í kvöld. Þungu fargi var létt af landsliðsfyrirliðanum eftir leik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira