Erlent

Theresa May boðar hertar aðgerðir og segir öfgahópa vera margskonar

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
May lagði áherslu á samkennd, virðingu og frelsi.
May lagði áherslu á samkennd, virðingu og frelsi. Vísir/AP
Theresa May hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna hryðjuverkaárásanna sem áttu sér stað í gærkvöldi. Einn er látinn og átta eru slasaðir. May segir árásina vera beint að venjulegum borgurum og vera ólíðandi.

„Í dag komum við saman, líkt og við höfum áður gert, til að fordæma árásina og leggja áherslu á að hatur og illska muni ekki ná völdum,“ sagði May í yfirlýsingunni.

Öryggismálanefnd bresku ríkisstjórnarinnar hefur fundað eftir árásina. Sérstaklega verður haft auga með moskum í London næstu daga. Ferlar verða endurskoðaðir og skipað verður sérstakt ráð til að berjast gegn hryðjuverkaógnum og hatursfullri hugmyndafræði og orðræðu.

May lagði áherslu á samkennd, virðingu og frelsi. Þá skipti ekki máli hver standi að baki árásum sem þessum því hart verður tekið á öllum öfgahópum og hugmyndafræði þeirra.

„Þetta minnir okkur á að hatur þrífst víða og öfga- og hryðjuverkahópar eru margskonar,“ sagði May.

Árásarmaðurinn er 48 ára gamall maður, hvítur á hörund, og keyrði hann sendiferðabíl inn í hóp af fólki.  Árásin, sem átti sér stað seint í gærkvöldi, beindist að múslímum sem voru að koma úr bænastund í mosku. Lögreglan tilkynnti að um hryðjuverkaárás væri að ræða aðeins átta mínútum eftir að tilkynnt var um árásina. Maðurinn hefur verið handtekinn og talið er að hann hafi verið einn að verki.


Tengdar fréttir

Einn látinn og átta slasaðir í London

Einn er látinn og átta slasaðir eftir að maður ók sendiferðabíl inn í hóp fólks fyrir utan mosku í norðurhluta Lundúna um miðnætti í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×