Skoðun

Valdefling stúlkna í Malaví

Guðný Nielsen skrifar
Fyrir rétt tæpu ári síðan sat ég fund þorpsbúa lítils þorps í Chikwawa-héraði í Malaví þar sem ung móðir óskaði aðstoðar Rauða krossins við að fæða fjölskyldu sína. Hún hafði fundið sig knúna til þess að veita karlmönnum aðgang að táningsdóttur sinni í skiptum fyrir mat. Fleiri mæður stóðu upp og tóku undir. Það er sorgleg staðreynd að fátækt bitnar mest á stúlkum og konum. Þær eru líklegri til að lifa í fátækt, síður líklegar til þess að hljóta menntun, líklegri til að stríða við heilsufarsvandamál og ef þær fæðast í fátækt er mun erfiðara fyrir þær og fjölskyldur þeirra að vinna sig út úr henni. Melinda Gates hittir naglann á höfuðið þegar hún segir „Poverty is sexist“. Á meðan Ísland trónir efst þjóða á lista yfir jafnrétti kynjanna situr Malaví í 67. sæti.

Hátt brottfall stúlkna úr skólum í Malaví er mikið áhyggjuefni. Vel hefur til tekist að fá foreldra til þess að skrá börn sín í skóla við sex ára aldur, bæði stúlkur og drengi. En eins og svo víða í þróunarlöndum er heimilið og fjölskyldan talin meginábyrgð kvenna og því til lítils talið að útvega stúlkum menntun. Malavískar stúlkur hætta oft skólagöngu fljótt og talið er að allt að 32% stúlkna séu hættar skólagöngu á tólfta aldursári. Táningsaldurinn reynist mörgum stúlkum erfiður því við kynþroska upplifa þær mikla skömm og fordóma. Stúlka á blæðingum er talin óhrein og má til dæmis ekki nota sama klósett og aðrar stúlkur. Þær þurfa að fara í sérstaka skúra til þess að komast á klósettið og þar er oft ekki eiginlegt klósett heldur þurfa þær að gera sitt á flatt moldargólf. Skúrarnir eru gluggalausir, dimmir og óhreinir. Svo hjálpar það ekki til við að aflétta skömminni að skúrarnir eru svo sérstakir og áberandi að það er augljóst hvaða stúlka er á blæðingum hverju sinni. Það gefur auga leið að stúlkur kjósa frekar að vera heima hjá sér en í skóla þá daga sem þær eru á blæðingum.

Skólaganga stúlkna



Konur og stúlkur í Malaví bera ábyrgð á því að útvega heimili sínu vatn og þurfa margar þeirra að ganga langar vegalengdir daglega til þess að sækja drykkjarhæft vatn á meðan bræður þeirra sækja skóla. Þær eyða þannig dýrmætum tíma í heimilishald sem annars gæti nýst til skólagöngu. Gönguleiðin getur verið hættuleg ungum stúlkum sem eru mjög berskjaldaðar einar á gangi með þungar vatnsfötur.

Mikil áhersla er lögð á það í skólum að stúlkur séu skírlífar fram að hjónabandi. Í skólastofum víða um Malaví hanga veggspjöld sem segja stúlkum við hverju þær megi búast ef þær verða þungaðar, s.s. að upplifa mikla depurð sem svo leiðir þær til sjálfsvígs eða þær muni neyðast til að hætta í skóla og lifa við mikla fátækt ef þær verði þungaðar. Fari þær í ólöglega fóstureyðingu eru skilaboðin yfirleitt þau að þær muni einfaldlega deyja. Drengjum er sjaldnast kennt að þeir beri ábyrgð. Fókusinn er ávallt á stúlkurnar og mikilvægi þess að þær viðhaldi hreinleika sínum. Algeng ástæða brottfalls stúlkna úr skóla er þannig þungun. Gríðarlega mikil skömm fylgir því fyrir ungar stúlkur að verða þungaðar og hætta þær flestar fljótt skólagöngu og snúa ekki aftur. Oft er eina leiðin fyrir þær að aflétta skömminni að giftast barnsföðurnum. Þungunarrof er ólöglegt í Malaví svo þær eiga engra annarra kosta völ en að ala barn. Þá eru ótalmargar stúlkur einfaldlega of ungar til að fæða börnin sín og deyja við barnsburð því oft er enga heilbrigðisþjónustu að fá. Malaví situr í 24. sæti yfir þau lönd þar sem mæðradauði er mestur.

Barnahjónabönd



Malaví er eitt þeirra landa þar sem barnahjónabönd eru hvað algengust. Talið er að um 46% stúlkna í Malaví séu giftar fyrir 18 ára aldur og um 9% fyrir 15 ára aldur. Fátæktin er einn helsti drifkrafturinn í þessum hjónaböndum. Margar fjölskyldur hafa oft ekki efni á því að hafa öll börnin á heimilinu og bregða því á það ráð að gifta stúlkur frá sér. Í sumum héruðum er hefð fyrir því að láta ungar stúlkur ganga upp í skuld sem fjölskyldur geta ekki borgað og er stúlkan þá gefin lánadrottnum í hjónaband – sannkallað brúðkaup.

Þar til í febrúar 2017 heimilaði stjórnarskrá landsins foreldrum að gifta börn sín fyrir 18 ára aldur en forseti landsins, Peter Mutharika, hefur nú skorið upp herör gegn þessari venju. Hann fer persónulega fyrir baráttunni og má sjá myndir af honum á veggspjöldum víða um landið þar sem hann hvetur íbúa landsins til þess að láta af þessu. Þrátt fyrir að gjörningurinn sé orðinn ólöglegur mun það ekki eitt og sér koma í veg fyrir barnahjónabönd. Það mun taka tíma að vinda ofan af rótgrónum venjum og hefðum. Efla þarf eftirlit og grípa hratt inn í ef upp kemst um lögbrot. Viðurlög þurfa að vera afdráttarlaus og hjálpa þarf ungum stúlkum að hefja nám að nýju og vera aftur teknar í sátt í samfélaginu, sem oft hafnar þeim.

Starf Rauða krossins



Rauði krossinn í Malaví vinnur mikið og gott starf með skólum víða á strjálbýlum svæðum í Malaví. Með stuðningi Rauða krossins á Íslandi, fyrir tilstilli Mannvina og utanríkisráðuneytisins undanfarin ár, hefur landsfélaginu tekist að styðja hundruð stúlkna til skólagöngu. Rauði krossinn greiðir fyrir þær skólagjöld, skólabækur, skólabúninga og skó. Svo hafa þær einnig fengið vasaljós til þess að læra við og margnota dömubindi sem reynist mjög mikilvægur þáttur í því að viðhalda reisn þeirra.

Þá hefur Rauði krossinn einnig brugðið á það ráð að grafa vatnsbrunna og byggja vatnsdælur á skólalóðunum sjálfum. Það hefur reynst fjölskyldum hvatning til að senda stúlkur til náms því þær geta borið vatnið heim að skóla loknum. Rauði krossinn hefur hafið mikla uppbyggingu salerna með rennandi vatni á skólalóðum og er sérstaklega passað upp á að stúlkur á blæðingum hafi góða aðstöðu. Sjálfboðaliðar fara hús úr húsi, milli þorpa, í skóla og á fundi öldunga og yfirvalda til þess að sinna málsvarastarfi fyrir stúlkur og hvetja alla til þess að róa í sömu átt, skilaboðin eru að skólasókn stúlkna sé þjóðinni nauðsynleg.

Mikil áhersla hefur verð lögð á að veita stúlkunum sjálfum stuðning og hvatningu til þess að halda áfram námi með myndun svokallaðra stúlknaklúbba í skólunum. Klúbbarnir hittast daglega og er yfirsetukona sem stýrir dagskránni. Klúbbavinnan miðar að því að efla stúlkurnar, auka sjálfstraust þeirra og trú á því að þær séu færar um að stýra eigin lífi. Þær fá fræðslu um réttindi sín og áhersla er lögð á að þær njóti frelsis til þess að neita körlum um kynlíf og að fjölskyldur þeirra megi ekki gifta þær fyrir 18 ára aldur. Stúlkurnar veita hver annarri einnig mikinn stuðning. Líkt og annars staðar eru fyrirmyndir mjög mikilvægar, enda er erfitt fyrir stúlkurnar að sjá tilgang með námi þegar þær þekkja engin dæmi þess að kona hafi bætt líf sitt með menntun. Sjálfboðaliðum hefur tekist að finna nokkrar konur sem koma frá sömu svæðum og hafa gengið menntaveginn. Ein slík starfar sem læknir í Lilongwe, höfuðborg Malaví, og hefur hún verið reglulegur gestur stúlknaklúbbs í gamla skólanum hennar.

Í dag, 19. júní, fögnum við Kvenréttindadeginum. Við minnumst þess að eitt sinn þóttu konur ekki jafnar körlum. Þær höfðu ekki réttinn til að kjósa, þær máttu ekki sækja háskóla, þær höfðu ekki jafnan erfðarétt og karlar og þar langt fram eftir götunum. Baráttan fyrir jöfnum réttindum var löng og erfið. Við megum ekki gleyma því að þótt við Íslendingar stöndum öðrum þjóðum fremri núna þegar kemur að jafnrétti kynjanna er baráttan er ekki unnin. Hún verður ekki unninn fyrr en jafnrétti er komið á fyrir kynsystur okkar um allan heim. Við þurfum áfram að berjast.

Höfundur er verkefnastjóri á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða krossins á Íslandi




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×