Innlent

Á skilorði fyrir gróf brot gegn litlu systur sinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skýrsla var tekin af systurinni í Barnahúsi eftir að hún hafði greint námsráðgjafa í skóla sínum frá brotunum.
Skýrsla var tekin af systurinni í Barnahúsi eftir að hún hafði greint námsráðgjafa í skóla sínum frá brotunum. Vísir/Valli
27 ára karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni. Brotin áttu sér stað fyrir áratug, þegar hann var sextán eða sautján ára en systir hans fimm eða sex ára gömul.

Dómurinn er skilorðsbundinn meðal annars vegna þess að það þykir ekki þjóna hagsmunum systur mannsins að bróðir hennar þurfi að sitja inn í fangelsi.

Greindi frá brotunum átta árum seinna

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn og birtur á vefsíðu dómstólsins í dag. Brot mannsins gagnvart systur sinni komu ekki í ljós fyrr en árið 2015 þegar hún greindi frá þeim í viðtali hjá námsráðgjafa í skólanum sínum.

Brotin áttu sér stað þegar bróðirinn var að passa litlu systur sína.Var hann dæmdur fyrir nokkur nauðgunarbrot en talið er að þau hafi átt sér stað yfir fjögurra eða fimm mánaða tímabil.

Móðir systkinanna frétti fyrst af brotunum þegar hringt var úr skóla stúlkunnar eftir viðtalið hjá námsráðgjafanum. Hún segir bróðurinn hafa verið að ljúka grunnskóla um það leyti sem brotin áttu sér stað. Honum hafi liðið illa á þeim tíma og orðið fyrir einelti. Að hennar sögn vildi dóttirin ekki ræða málin innan fjölskyldunnar.

Henni hafi þó verið létt eftir að hafa rætt málið við einhvern. Hún væri þó ósátt við að málið væri til meðferðar hjá dómstólum. Hún hefði áhyggjur af því hvað kæmi fyrir bróður hennar. Þó svo að ferlið hefði hjálpað henni, að sögn móðurinnar, yrði það áfall fyrir stúlkuna að sjá bróður sinn fara í fangelsi.

Faðir systkinanna sagði fyrir dómi að samband þeirra systkina í dag væri ágætt. Allir biðu þó eftir því hvað kæmi út úr dómsmálinu. Það væri ákveðinn endapunktur.

Skrifaði systur sinni afsökunarbréf

Niðurstaða geðlæknis sem skoðaði bróðurinn var sú að hann væri sakhæfur. Enginn vafi væri þar á. Enginn grunur væri um alvarlegan geðsjúkdóm. Eftir að málið kom upp bar á þunglyndi og kvíða hjá bróðurnum. Það hafi tengst málinu. Þá væri hann með einkenni einhverfu.

Sálfræðingur systurinnar staðfesti orð foreldranna um áhyggjur systurinnar af afdrifum bróður síns í dómsmálinu. Var það mat sálfræðingsins að hagsmunum hennar væri ekki best borgið með því að dæma bróðurinn í fangelsi. Þá hefði systirin ekkert vilja ræða brot bróðurins gegn sér.

Bróðirinn hefði auk þess ritað systur sinni bréf þar sem hann bað hana afsökunar. Systurinni hefði liðið betur eftir að hafa lesið bréfið. Þar kom fram að þau búa enn á sama heimili og bróðirinn aðstoði systur sína reglulega með því að skutla henni á milli staða.

Þá staðfesti sálfræðingur sem bróðirinn hefur leitað reglulega til undanfarin ár að ekkert benti til þess að hann væri haldinn barnagirnd. Bróðirinn hefði lýst atvikunum á þann veg að honum hefði liðið eins og hann væri að dreyma. Ekki væri talin hætta á að hann bryti aftur af sér.

Systur betur borgið með bróður sinn hjá sér

Dómarinn, Símon Sigvaldason, komst að þeirri niðurstöðu að dæma bróðurinn í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi svo hann þarf ekki að sitja inni. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivarða háttsemi.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um alvarlegt kynferðisbrot gegn yngri systur var að ræða. Þá var litið til þess að hann játaði brot sitt greiðlega og var ungur að árum þegar hann framdi brot sitt.

„Hann hefur sýnt mikla iðrun og sent brotaþola bréf þar sem hann biðst fyrirgefningar á gerðum sínum. Þá hefur hann leitað sér aðstoðar vegna þessara brota. Þá er sérstaklega til þess að líta að veruleg áhrif hefur á brotaþola hvort ákærði verður dæmdur í fangelsi. Er vanlíðan brotaþola að stórum hluta tengd því atriði og fram komið að hagsmunum hennar sé betur borgið með því að ákærði fari ekki í fangelsi.“

Dóminn í heild má lesa hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×