Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - Stjarnan 2-1 | Langþráður sigur Ólsara

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Ólsarar unnu sinn fyrsta sigur síðan í 3. umferð.
Ólsarar unnu sinn fyrsta sigur síðan í 3. umferð. vísir/andri marinó

Víkingur Ó. og Stjarnan mættust í kvöld í blíðskaparveðri á Ólafsvík í kvöld.
Bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda en Víkingur Ó. er í fallbaráttu á meðan Stjarnan ætlar sér að berjast um titilinn.

Stjarnan byrjaði af krafti en þó án þess að skapa sér nein dauðafæri. Víkingur Ó. beitti skyndisóknum af krafti og uppskáru á endanum á 17. mínútu er Kwame Quee skoraði eftir fallega sókn.

Þorsteinn Már lagði upp mark Kwame og hann var aftur á ferðinni í upphafi seinni hálfleiks er hann lagði upp sitt annað mark. Þorsteinn fékk þá boltann á kanntinum og sólaði Brynjar Gauta, fyrrum samherja sinn hjá Ólafsvík, upp úr skónum og lagði hann svo fyrir á Guðmund Stein sem átti ekki í vandræðum með að skora af stuttu færi.

Stjörnumenn náðu að klóra í bakkann á lokamínútunum með marki úr vítaspyrnu og stuttu síðar varði Cristian Martinez frábærlega eftir skalla frá Brynjari Gauta og þar við sat.

2-1 sigur Víkings Ó. staðreynd. Víkingur er enn í botnsæti deildarinnar en þetta var þriðja tap Stjörnunar í röð en liðið situr í þriðja sæti, sex stigum á eftir toppliði Vals.

Af hverju vann Víkingur Ó.?
Heimamenn voru grimmari og aðgangsharðari en Stjörnumenn í allt kvöld. Víkingur Ó. leyfði Stjörnunni að vera með boltann og beittu svo skyndisóknum þegar tækifæri gafst og það virkaði vel.

Stjarnan spilaði með mjög háa línu en í staðinn fyrir að þruma boltanum bara eitthvert eins og Víkingur Ó. hefur gert sig seka um á stórum köflum í sumar voru sóknir liðsins mjög markvissar.

Spili liðið svona áfram í sumar getur liðið vel haldið sér uppi. Nú er bara að sjá hvað gerist í Víkingaslagnum í næstu umferð er liðið heimsækir Víking R.

Hverjir stóðu upp úr?
Allt lið Víkings Ó. spilaði vel í kvöld. Varnarmenn liðsins voru frábærir eins og sést sérstaklega á 15 hornspyrnum Stjörnunar sem nákvæmlega ekkert kom út úr.

En af varnarmönnum myndi ég segja að Ignacio hafi staðið upp úr og rúmlega það. Hann stoppaði vinstri kant Stjörnunar með glæsibrag en hann hefur einmitt reynst mörgum liðum erfiður í sumar.

Kwame Quee var frábær sem sókndjarfur miðjumaður og gerði varnarmönnum Stjörnunar lífið leitt allan leikinn og svo má ekki gleyma Þorsteini Má.
Í öðru marki Víkings Ó. átti Þorsteinn einhverja drauma móttöku sem fékk undirritaðan til að svitna duglega á efri vörinni. Hann fór auðveldlega framhjá Brynjari Gauta og lagði upp sitt annað mark í leiknum. Maður leiksins í kvöld. Punktur.

Hvað gekk illa?
Stjarnan er nánast óþekkjanlegt lið frá því í byrjun sumars. Vantaði mjög mikið upp á leik liðsins í kvöld og þeir nánast gengu beint inn í gildru Ólafsvíkinga með því að spila með vörnina jafn hátt og raun bar vitni.

Þetta er þriðja tap liðsins í röð og eftir tal um Íslandsmeistaratitilinn í byrjun sumars þá fer þeim öldum að lægja núna og það þangað til þeir hysja upp um sig buxurnar.

Næsti leikur liðsins er gegn ÍA. Tap í þeim leik og þá er örugglega hægt að byrja að hvíslast á um krísuna í Garðabæ.

Einkunnir:

Víkingur Ó.: Cristian Martínez 7, Alexis Egea 7, Nacho Heras 8, Tomasz Luba 7, Guðmundur Steinn Hafsteinsson 7 (71. Pape Mamadou Faye -), Þorsteinn Már Ragnarsson 8* (89. Hörður Ingi Gunnarsson -), Kwame Quee 8, Alfreð Már Hjaltalín 7, Gunnlaugur Hlynur Birgisson 7, Kenan Turudija 7, Eric Kwakwa 7 (64. Alonso Sanchez 7).

Stjarnan: Sveinn Sigurður Jóhannesson, 5 Brynjar Gauti Guðjónsson 5, Jósef Kristinn Jósefsson 5, Jóhann Laxdal 4 (57. Hörður Árnason 5), Baldur Sigurðsson 5, Daníel Laxdal 5, Hilmar Árni Halldórsson 5, Heiðar Ægisson 5, Ólafur Karl Finsen 4 (69. Kristófer Konráðsson 5), Hólmbert Aron Friðjónsson 4, Alex Þór Hauksson 5 (80. Máni Austmann Hilmarsson -).

Ejub: Langar að taka dansspor eins og Jón Rúnar
Ejub Purisevic, þjálfari Ólafsvíkinga, var kampakátur í leikslok og sagðist helst vilja taka nokkur danspor.

„Mig langar helst bara að taka nokkur dansspor eins og Jón Rúnar en ég er bara ekki eins góður og hann,“ sagði Ejub með bros á vör en þarna er hann að vitna í formann knattspyrnudeildar innan FH en hann tók eftirminnileg dansspor í sigri FH á Stjörnunni á dögunum.

Hann hrósaði leikmönnum sínum hástert fyrir frammistöðuna og sagði hana hafa verið mjög góða frá upphafi til enda.

Rúnar Páll: Við gáfum þeim sigurinn
Rúnar Páll, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum ekki ánægður í leikslok en hann taldi sína menn hreinlega hafa gefið Víkingum Ó. sigurinn.

„Mér fannst við gefa þeim sigurinn. Við vorum alveg með leikinn í byrjun þar sem þeir fóru varla yfir miðju og svo fengum við allt í einu klaufa mark á okkur og staðan orðin 1-0.“

Aðspurður um heilsu leikmanna á borð við Guðjón Baldvinsson og Eyjólf Héðinsson sagði hann að það kæmi í ljós á næstu dögum.

Þorsteinn Már: Ég á aðeins eftir að stríða Brynjari Gauta
Þorsteinn Már Ragnarsson átti frábæran leik fyrir Víking Ó. í kvöld er hann lagði upp bæði mörk Ólafsvíkinga í 2-1 sigri á Stjörnunni.

Hann kvaðst vera ánægður með sína frammistöðu og hrósaði einnig öllum leikmönnum liðsins fyrir baráttu og frammistöðu liðsins í kvöld.

Annað mark Ólafsvíkinga var ansi glæsilegt og þá sérstaklega út af tilþrifum Þorsteins áður en hann sendi boltann fyrir á Guðmund Stein sem skoraði.

„Ég næ einhverri drauma móttöku, næ svo að stinga mér framhjá Brynjari Gauta og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Steina þegar ég sendi á hann,“ en hann og Brynjar Gauti eru báðir ættaðir úr Ólafsvík.

Aðspurður hvort það væri ekki sætt að fara jafn illa með gamla félagan inn á fótboltavellinum var Þorsteinn í engum vafa.

„Já, ég á eftir stríða honum aðeins með þetta,“ sagði Þorsteinn hlæjandi.

Baldur: Þurfum að gera allt betur
Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, segir sig og sína menn vera sjálfum sér verstir í undanförnum leikjum og segir spilamennskuna ekki nógu góða.

„Gríðarlega svekktur. Ekki bara með úrslitin heldur frammistöðuna líka. Það er fátt sem gengur upp hjá okkur þessa daganna.“

Hann segist helst vilja spila næsta leik strax í dag en Stjarnan mætir ÍA í næstu umferð.

„Við þurfum að gera allt betur en ég er mjög spenntur fyrir honum. Mig langar bara að spila hann strax til að leiðrétta þennan leik og gera miklu betur. Mig langar að fá þessa sigurtilfinningu aftur.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.