Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: FH - Víkingur R. 2-2 | Víkingar halda áfram að safna stigum undir stjórn Loga

Kristinn Páll Teitsson skrifar
FH-ingar fagna marki Stevens Lennon.
FH-ingar fagna marki Stevens Lennon. vísir/anton
FH og Víkingur skildu jöfn 2-2 í Kaplakrika í kvöld í áttundu umferð Pepsi-deildar karla en þetta var fimmti leikur Víkinga í röð án ósigurs eftir að Logi Ólafsson tók við liðinu í vor.

Steven Lennon kom FH-ingum yfir í tvígang í leiknum en Arnþór Ingi Kristinsson og Ívar Örn Jónsson jöfnuðu metin fyrir Víkinga, það síðara eftir glæsilegt samspil Ívars og Ragnars Braga stuttu eftir annað mark Lennon.

Erfiðleikar Íslandsmeistaranna halda því áfram en FH er komið átta stigum á eftir toppliði Vals og hefur liðið aðeins unnið einn heimaleik af fjórum.

Af hverju varð jafntefli?

Að lokum er hægt að tala um verðskuldað jafntefli en eftir að hafa verið slakari aðilinn framan af komu gestirnir úr Fossvogi sterkari til leiks í seinni hálfleik og verðskulduðu að jafna metin í upphafi seinni hálfleiks.

Jöfnunarmark Ívars kom svo aðeins mínútum eftir að Lennon kom FH aftur yfir og gaf það FH engan möguleika á að reyna að drepa leikinn niður á nýjan leik.

FH-ingar voru hættulegri á lokamínútunum og hefðu með smá heppni getað stolið sigrinum en það virðist einhver dofi vera yfir liðinu sem klárar ekki leiki sem FH er vant að klára.

Þessir stóðu upp úr

Steven Lennon var duglegur að koma sér í færi hjá FH og var óheppinn að ná ekki að fullkomna þrennuna með skoti í upphafi seinni hálfleiks en hann og Atli Guðnason voru duglegir að reyna að finna svæðin á milli varnar og sóknar.

Hjá Víkingum áttu markaskorararnir tveir flottan leik, Arnþór Ingi var öflugur að brjóta niður sóknir og dreifa boltanum vel inn á miðjunni en Ívar vann sig inn í leikinn eftir því sem leið á hann.

Hvað gekk illa?

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, talaði um það í viðtölum eftir leik að FH-liðið ætti í erfiðleikum með að komast yfir þar sem liðið félli of langt aftur í stað þess að reyna að drepa leiki eins og liðið átti til.

Besti kafli liðsins kom í kringum markið en FH átti álitlegar sóknir stuttu eftir fyrsta mark leiksins en fljótlega færðu þeir sig aftar á völlinn og minnkuðu sóknarþungann.

Hvað gerist næst?

Víkingar mæta nöfnum sínum frá Ólafsvík á heimavelli eftir að hafa tekið fjögur stig úr leikjum gegn FH og Stjörnunni á útivelli en það hefur reynst liðinu erfitt að fylgja eftir leikjum gegn stóru liðunum á pappírum þegar þau mæta minni spámönnum.

FH-ingar fara til Vestmannaeyja og mæta ÍBV sem hefur verið upp og niður í leikjum sumarsins en það er ljóst að FH verður að fara að raka inn stigum þar sem liðið er komið átta stigum á eftir toppliði Vals.

Davíð: Varnarleikurinn okkar í öðru markinu er ekki til útflutnings„Ég held að það sé ekki hægt að tala um krísu sem slíka, krísa er full stórt orð þótt að við séum allir ósáttir með stigasöfnunina til þessa,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, aðspurður hvort krísuástand væri komið upp í Hafnarfirði eftir 2-2 jafntefli gegn Víking í kvöld.

FH-ingum gengur illa að halda forskoti.

„Í fyrra vorum við að spila góðan varnarleik og náðum að sigla sigrum heim á því þrátt fyrir að vera ekkert að spila neitt frábæran sóknarleik. Það gengur erfiðlega að halda markinu hreinu og við erum að leka inn mörkum og það er bara ótrúlega fúlt,“ sagði Davíð sem var sérstaklega ósáttur með varnarleikinn í öðru marki Víkinga.

„Þetta var mjög vel klárað eftir góða sókn en varnarleikurinn okkar í því marki er ekki til útflutnings. Ívar tekur snertingu inn í teignum og fær svo tíma til að velja sér stað til að leggja boltann.“

FH er komið átta stigum á eftir toppliði Vals eftir átta umferðir.

„Við ætluðum okkur að vera á toppnum á þessum tímapunkti en við getum ekki hugsað út í það. Við þurfum að ná að sleikja sárin og mæta almennilega inn í næsta leik, við getum ekkert verið að hugsa lengra en það.“

Ívar Örn: Fáum kjaftshögg eftir að hafa jafnað leikinn„Miðað við að lenda tvisvar undir á þessum velli er flott að taka stig úr þessu en við erum samt ekki alveg sáttir,“ sagði Ívar Örn Jónsson, leikmaður Víkinga, hreinskilinn að leikslokum í kvöld.

„Við fáum svolítið kjaftshögg eftir að hafa jafnað leikinn þegar þeir fá víti. Þegar við jöfnum leikinn erum við með meðbyrinn en það drap andann okkar í smá en að leikslokum er fínt að taka stig úr því sem komið var.“

Var þetta fimmti leikur Víkinga í röð án ósigurs.

„Það býr heilmikið í þessu liði, við höfum sýnt það upp á síðkastið og við þurfum að halda því áfram. Við þurfum bara að hætta að gefa þessi mörk á okkur, við höfum verið að vinna í grunnvinnuni og ekkert verið að finna upp hjólið en með hverju stigi kemur léttari andi.“

Ívar er með einn öflugasta vinstri fót landsins en hann skoraði glæsilegt mark með hægri fæti.

„Það er aðeins sjaldgæfara, ég nota hann aðallega til stuðnings en hann skilaði góðu verki í dag. Það var glæsilegt að ná að klára þessa sókn með svona marki.“

Heimir: Alltaf sama gamla tuggan„Það er alveg örugglega hægt að tala um krísu í Hafnarfirði, mér fannst við góðir í upphafi og komumst sanngjarnt yfir en eftir það var þetta bara sama gamla tuggann,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, vonsvikinn að leikslokum.

„Eins og vanalega þegar við komumst yfir þá fara leikmenn í að reyna að sleppa eins auðveldlega og hægt er. Við hleyptum þeim inn í leikinn á nýjan leik í staðin fyrir að sýna drápseðli og þeir jöfnuðu bara sanngjarnt.“

Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Heimi.

„Við svörum með marki en þá tók bara sama dæmi við aftur. Við fórum bara að bíða og sjá hvað þeir ætluðu að gera í staðin fyrir að taka frumkvæðið. Í báðum mörkunum þeirra er auðvelt að koma í veg fyrir þetta,“ sagði Heimir og hélt áfram:

„Það er í raun ekki fyrr en í lokin þegar leikurinn er jafn og við gjörsamlega þurfum að sækja mark að við förum að spila aftur í stað þess að halda áfram og sækja fleiri mörk.“

FH (4-4-2): Gunnar Nielsen 5 - Jonathan Hendrickx 6, Bergsveinn Ólafsson 6, Kassim Doumbia 5, Böðvar Böðvarsson 6 (50. Þórarinn Ingi Valdimarsson) - Guðmundur Karl Guðmundsson 4 (71. Halldór Orri Björnsson), Pétur Viðarsson 5 (86. Atli Viðar Björnsson), Davíð Þór Viðarsson 6, Atli Guðnason 6 - Steven Lennon 8, Kristján Flóki Finnbogason 6.

Víkingur R. (4-3-3): Róbert Örn Óskarsson 6 - Dofri Snorrason 6 (74. Davíð Örn Atlason), Alan Lowing 7, Halldór Smári Sigurðsson 6, Ívar Örn Jónsson 7 - Milos Ozegovic 6, Arnþór Ingi Kristinsson 8, Alex Freyr Hilmarsson 4 - Vladimir Tufegdzic 4 (79. Erlingur Agnarsson), Ragnar Bragi Sveinsson 7, Ivica Jovanovic 5 (94. Örvar Eggertsson).

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira