Fótbolti

Hefja rannsókn á því hvort Modric hafi logið fyrir rétti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Modric á leið í réttarsalinn.
Modric á leið í réttarsalinn. vísir/epa

Króatískir saksóknarar hafa hafið rannsókn á því hvort Luka Modric, leikmaður Real Madrid og króatíska landsliðsins, hafi logið fyrir rétti þegar hann bar vitni í fjársvikamáli gegn Zdravko Mamic, fyrrverandi framkvæmdastjóra Dinamo Zagreb.

Modric er ekki nefndur á nafn í yfirlýsingu saksóknarana en talað er um króatískan ríkisborgara, fæddan árið 1985.

Tveimur dögum eftir tapið fyrir Íslandi á Laugardalsvellinum 11. júní mætti Modric í réttarsal í Osijek. Réttarhöldin voru færð þangað frá Zagreb til að koma í veg fyrir að Mamic hefði áhrif á dómara í höfuðborginni.

Modric leið greinilega illa í réttarsalnum þar sem hann var spurður út í félagaskipti sín frá Dinamo Zagreb til Tottenham árið 2008.

Í réttarsalnum sagði Modric að hann hefði skrifað undir viðauka við samning sinn, þess efnis að Mamic fengi hluti af söluverði Modric í júlí 2004.

Það stangast á við það sem Modric sagði fyrir tveimur árum, um að hann hefði skrifað undir viðaukann eftir að hann gekk í raðir Tottenham.

Falskur vitnisburður varðar allt að fimm ára fangelsi í Króatíu.

Modric er mjög vinsæll og virtur í heimalandinu en ímynd hans ku hafa beðið hnekki vegna málsins.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira