Fótbolti

Hefja rannsókn á því hvort Modric hafi logið fyrir rétti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Modric á leið í réttarsalinn.
Modric á leið í réttarsalinn. vísir/epa

Króatískir saksóknarar hafa hafið rannsókn á því hvort Luka Modric, leikmaður Real Madrid og króatíska landsliðsins, hafi logið fyrir rétti þegar hann bar vitni í fjársvikamáli gegn Zdravko Mamic, fyrrverandi framkvæmdastjóra Dinamo Zagreb.

Modric er ekki nefndur á nafn í yfirlýsingu saksóknarana en talað er um króatískan ríkisborgara, fæddan árið 1985.

Tveimur dögum eftir tapið fyrir Íslandi á Laugardalsvellinum 11. júní mætti Modric í réttarsal í Osijek. Réttarhöldin voru færð þangað frá Zagreb til að koma í veg fyrir að Mamic hefði áhrif á dómara í höfuðborginni.

Modric leið greinilega illa í réttarsalnum þar sem hann var spurður út í félagaskipti sín frá Dinamo Zagreb til Tottenham árið 2008.

Í réttarsalnum sagði Modric að hann hefði skrifað undir viðauka við samning sinn, þess efnis að Mamic fengi hluti af söluverði Modric í júlí 2004.

Það stangast á við það sem Modric sagði fyrir tveimur árum, um að hann hefði skrifað undir viðaukann eftir að hann gekk í raðir Tottenham.

Falskur vitnisburður varðar allt að fimm ára fangelsi í Króatíu.

Modric er mjög vinsæll og virtur í heimalandinu en ímynd hans ku hafa beðið hnekki vegna málsins.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira