Innlent

Finna áður óþekkt tengsl stökkbreytts gens við geðklofa

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar. Vísir/Vilhelm

Íslensk erfðagreining hefur fundið áður óþekkt tengsl stökkbreytts gens við geðklofa. Stökkbreytingar í erfðavísinum RBM12 eru taldar auka verulega líkurnar á geðklofa. 

Á vef íslenskrar erfðagreiningar segir að leitin sem leiddi til þessarar uppgötvunar hafi byrjað hjá einni íslenskri fjölskyldu þar sem sumir fjölskyldumeðlimir höfðu greinst með geðklofa. Eftir leit í erlendum gagnabönkum fannst sambærileg stökkbreyting í sama erfðavísi (RBM12) í finnskum einstakling sem einnig hafði greinst með geðklofa. Sú stökkbreyting fannst síðan í fjölskyldumeðlimum hans sem höfðu greinst með sjúkdóminn.

„Geðklofi er sjúkdómur sem felur í sér frávik í hugsun, hegðun og tjáningu tilfinninga“ segir Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar, í tilkynningu á vef erfðagreiningar.

Geðklofa getur einnig fylgt óráð, og hug- og skynvillur. Kári segir að ef hægt sé að varpa ljósi á orsakir geðklofa færist erfðarannsóknir nær því að skilja hvernig hugsanir og tilfinningar mótast.

„Við höfum áður leitt að því líkur að þær breytingar á hugsun, sem tengjast geðklofa séu mögulega ekki afleiðing sjúkdómsins, heldur þvert á móti að sjúkdómurinn sé afleiðingin af breyttri hugsun“, heldur Kári áfram.

„Og í fyrri rannsóknum okkar höfum við fundið vísbendingar um tengsl geðklofa og skapandi hugsunar.“

Rannsóknin var unnin í samstarfi við Landspítalann og SÁÁ ásamt erlendu samstarfsfólki íslenskrar erfðagreiningar. Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá Kára Stefánsson fara yfir niðurstöður rannsóknarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira