Fótbolti

Southampton-mennirnir áttu heiðurinn af sigurmarki Englendinga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nathan Redmond tryggði Englendingum öll stigin þrjú gegn Slóvökum.
Nathan Redmond tryggði Englendingum öll stigin þrjú gegn Slóvökum. vísir/epa

Enska landsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri kom til baka og vann 1-2 sigur á Slóvakíu í A-riðli Evrópumótsins í Póllandi í dag.

Englendingar voru undir í hálfleik en mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og sneru dæminu sér í vil. England er núna með fjögur stig á toppi riðilsins.

Martin Chrien kom Slóvökum í 1-0 á 23. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik jafnaði Alfie Mawson metin fyrir Englendinga. Mawson er samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea City og skoraði nokkur mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Á 61. mínútu skoraði Nathan Redmond svo sigurmark Englands eftir sendingu frá James Ward-Prowse, samherja sínum hjá Southampton. Lokatölur 1-2, Englandi í vil.

Englendingar mæta Pólverjum í lokaumferð riðlakeppninnar á fimmtudaginn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira