Íslenski boltinn

Davíð vill ekki tala um krísu: Ósáttir með stigasöfnunina en krísa er stórt orð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH.
Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH. vísir/anton
„Ég held að það sé ekki hægt að tala um krísu sem slíka, krísa er full stórt orð þótt að við séum allir ósáttir með stigasöfnunina til þessa,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, aðspurður hvort krísuástand væri komið upp í Hafnarfirði eftir 2-2 jafntefli gegn Víking í kvöld.

Íslandsmeistararnir eru aðeins með átta stig í síðustu sjö leikjum og hafa aðeins unnið einn heimaleik af fjórum í upphafi sumars.

„Í fyrra vorum við að spila góðan varnarleik og náðum að sigla sigrum heim á því þrátt fyrir að vera ekkert að spila neitt frábæran sóknarleik. Núna gengur erfiðlega að halda markinu hreinu, við erum að leka inn mörkum og það er bara ótrúlega fúlt,“ sagði Davíð sem var sérstaklega ósáttur með varnarleikinn í öðru marki Víkinga.

„Þetta var mjög vel klárað eftir góða sókn en varnarleikurinn okkar í því marki er ekki til útflutnings. Ívar tekur snertingu inn í teignum og fær svo tíma til að velja sér stað til að leggja boltann.“

FH er komið átta stigum á eftir toppliði Vals eftir átta umferðir.

„Við ætluðum okkur að vera að berjast á toppnum á þessum tímapunkti en við getum ekki hugsað út í það. Við þurfum að ná að sleikja sárin og mæta almennilega inn í næsta leik, við getum ekkert verið að hugsa lengra en það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×