Erlent

Trump fordæmir stjórnvöld Norður-Kóreu vegna andláts Warmbier

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump forseti Bandaríkjanna á málþingi í Hvíta húsinu í dag.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna á málþingi í Hvíta húsinu í dag. Vísir/AFP
Donald Trump forseti Bandaríkjanna segir stjórnvöld Norður Kóreu „hrottaleg“ í kjölfar frétta af andláti Otto Warmbier. Þá vottaði forsetinn fjölskyldu Warmbier einnig samúð sína. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu í dag.

Í tilkynningunni, sem bæði forsetinn og forsetafrúin, Melania Trump, skrifa undir, segir að örlög Warmbier „dýpki staðfestu ríkisstjórnarinnar til að koma í veg fyrir að saklaust fólk verði fyrir harmleikjum af hendi stjórnvalda sem virða hvorki lög né grundvallar velsæmi,“ en þar er átt við stjórnvöld Norður-Kóreu.  

Warmbier var handtekinn og sakaður um að stela áróðursskilti á hóteli sínu þegar hann heimsótti Norður-Kóreu í janúar 2016. Honum var sleppt úr haldi norður-kóreskra stjórnvalda í síðustu viku eftir að hafa verið dæmdur í fimmtán ára nauðungarvinnu. Hann hafði verið í dái síðan í mars á síðasta ári en lést vegna áverka sem hann hlaut í prísundinni í dag.

Þá segir Trump að Bandaríkin fordæmi „hrottaskap“ stjórnvalda í Norður-Kóreu. Hann vottar einnig fjölskyldu Warmbier samúð sína vegna „ótímabærs andláts hans.“

„Það er ekkert sorglegra fyrir foreldra en að missa barn í blóma lífsins. Hugur okkar er hjá fjölskyldu og vinum Ottos, og öllum þeim er elskuðu hann,“ segir jafnframt í tilkynningu forsetans.


Tengdar fréttir

Otto Warmbier er látinn

Bandaríski námsmaðurinn Otto Warmbier, sem var sleppt úr haldi norður-kóreskra stjórnvalda í síðustu viku, eftir að hafa verið dæmdur í fimmtán ára nauðungarvinnu, er látinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×