Erlent

Risavaxinn borgarísjaki að brotna af suðurskautsísnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vísindamenn segja að sprungan í Larsen C-íshellunni hafi stækkað gríðarlega á skömmum tíma.
Vísindamenn segja að sprungan í Larsen C-íshellunni hafi stækkað gríðarlega á skömmum tíma. Vísir/EPA
Sprunga í Larsen C-íshellunni á Suðurskautslandinu sem vísindamenn hafa haft góðar gætur á undanfarið hefur stækkað gríðarlega á örskömmum tíma. Útlit er fyrir að risavaxinn jaki úr íshellunni sé við það að brotna frá henni.

Gervihnattamælingar benda til þess að sprungan hafi vaxið um tæpa 18 kílómetra frá 25. til 31. maí. Hún á nú aðeins tæpa 13 kílómetra eftir þangað til hún klífur borgarísjaka sem er um fimmfalt stærri en höfuðborgarsvæðið að flatarmáli. Sprungan er nú um 200 kílómetra löng.

Hraðar því að jöklar gangi fram í sjó

Brotni ísjakinn risavaxni af tapar Larsen C-íshellan um 10% af flatarmáli sínu samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Sambærilegir atburður hafa átt sér stað á Larsen A og B íshellunum sem leiddu á endanum til þess að þær brotnuðu algerlega upp. Sömu örlög gætu beðið Larsen C.

Í umfjöllun Washington Post kemur fram að sjávarmál hækki ekki ef ísjakinn brotnar frá hellunni þar sem hann flýtur þegar í sjónum. Ístap af þessu tagi leiði hins vegar til þess að jöklar Suðurskautslandsins gangi hraðar fram í sjó.

Tíðindin koma á sama tíma og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, virðist búa sig undir að draga landið út úr Parísarsamkomulaginu. Því er ætlað að reyna að draga úr og stöðva loftslagsbreytingarnar sem valda meðal annars bráðnun íshettanna á jörðinni.

Staðsetning sprungunnar í Larsen C-íshellunni.Kort/Project MIDAS

Tengdar fréttir

Parísarsamkomulagið er sagt í hættu

Donald Trump er sagður vilja draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Evrópa býst við að leiða baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Framkvæmdastjóri SÞ segir málið vandamál allra. Óljóst er hvernig Bandaríkin gætu dregið sig út

Aldrei minna af hafís við suðurheimskautið

Það eru ekki meira en þrjú ár síðan að aldrei hafði mælst meiri ís á sjálfu Suðurskautslandinu og var sú staðreynd oft notuð af efasemdarmönnum um loftlagsbreytingar sem sönnun fyrir því að þær væru ekki raunverulegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×