Innlent

Þriðjungur kjósenda styður ríkisstjórnina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ráðherrar í ríkisstjórninni.
Ráðherrar í ríkisstjórninni. Vísir/Eyþór
Þriðjungur kjósenda styður ríkisstjórnina samkvæmt nýrri könnun MMR. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi íslenskra flokka.

Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað á milli kannanna MMR og mælist nú 31,4 prósent, 0,4 prósentustigum hærra en í síðustu könnun MMR.

Mikið hefur mætt á stjórnarflokkunum að undanförnu, ekki síst í tengslum við fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu sem hefur verið harðlega gagnrýnt af hagsmunaaðilum innan ferðaþjónustunnar.

Þá hefur nokkur styr staðið um tillögu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra um skipan dómara við Landsrétt. Í tillögu dómsmálaráðherra eru fjórir einstaklingar sem hæfnisnefnd mat ekki á meðal þeirra fimmtán hæfustu til að gegna embætti dómara við Landsrétt.

Viðreisn bætir við sig 0,5 prósentustigum og mælist með 5,5 prósent fylgi nú. Björt framtíð bætir við sig 0,2 prósentustigum og mælist með 3,4 prósent fylgi.

Vinstri græn mælast með næst mest fylgi eða 21,4 prósent. Það er tveggja prósentustiga lækkun frá síðustu mælingu þar sem fylgið mældist 23,4 prósent. Fylgi Pírata mældist 14,1 prósent og er það hækkun um 1,3 prósentustig frá síðustu mælingu.

Framsóknarflokkurinn mælist með 12,2 prósent fylgi en mældist 11,1 prósent í síðustu könnun.

Fylgi Flokks fólksins mælist nú 3,2 prósent sem er það sama og í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mælist 5,4 prósent samanlagt.

Könnunin var framkvæmd dagana 11-16.maí. Svarfjöldi var 943 einstaklingar, 18 ára og eldri.

 


Tengdar fréttir

Einn hinna sniðgengnu íhugar málsókn

Einn þeirra sem dómsmálaráðherra lagði ekki til að yrðu skipaðir Landsréttardómarar, þvert á mat hæfnisnefndar, íhugar málsókn. Minnihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er ósáttur við afgreiðslu tillögunnar úr nefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×