Fótbolti

Markvörðurinn skoraði úr síðustu spyrnunni og tryggði Lyon titilinn | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lyon vann í gær Meistaradeild Evrópu kvenna eftir dramatískan sigur á Paris Saint-Germain í vítaspyrnukeppni, 7-6, í úrslitaleik í Cardiff.

Þetta er annað árið í röð og fjórða skiptið á síðustu sjö árum sem Lyon verður Evrópumeistari.

Lyon fór Krýsuvíkurleiðina að titlinum í gær. Úrslitaleikurinn var fremur tíðindalítill og hvorugu liðinu tókst að skora í venjulegum leiktíma og framlengingu. Því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni og þar reyndist Sarah Bouhaddi, markvörður Lyon, hetjan.

Bæði lið skoruðu úr fjórum af fyrstu fimm spyrnum sínum og því var farið í bráðabana. Liðin skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnum sínum þar og í 3. umferð bráðabanans var svo komið að einvígi markvarðana.

Katarzyna Kiedrzynek tók áttundu spyrnu PSG en skaut framhjá marki Lyon. Bouhaddi fór svo á punktinn, skoraði framhjá Kiedrzynek og tryggði Lyon titilinn.

Lyon er einnig franskur meistari og bikarmeistari og vann því þrennuna svokölluðu annað árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×