Lífið

Sögur af stöðinni

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Þeir Arnþór og Óli Valdimar hafa starfað sem leigubílstjórar í áratugi.
Þeir Arnþór og Óli Valdimar hafa starfað sem leigubílstjórar í áratugi. vísir/Anton brink
Kaffistofa Hreyfils hefur sjaldan tæmst jafn fljótt og þegar blaðamann og ljósmyndara bar að garði í vikunni.

„Það borgar sig ekki að tala neitt um þessa stétt,“ segir einn leigubílstjóranna sem rýkur út. Annar segist vera þreyttur á netinu. Þar sé alltaf allt brjálað alveg sama hvað sagt er.

Eftir situr Arnþór Stefánsson leigubílstjóri og seinna bætast í hópinn Óli Valdimar Ívarsson, Gunnar H. Bílddal og Ásdís Ásgeirsdóttir. Öll hafa þau starfað sem leigubílstjórar í áratugi. Gunnar allra lengst eða frá árinu 1966.

Sjálfsagt eru þetta því huguðustu eða þolinmóðustu leigubílstjórar stöðvarinnar sem nenna að sitja og ræða um stétt sína á tímum virkra í athugasemdum. Eða kannski er bara svona mikið að gera á þriðjudegi í miðju ferðamannagóðæri.

Arnþór er ekki mikið fyrir að ræða málin í þaula. Hann fer á eftirlaun eftir tvö ár. „Ég er búinn að vera nógu lengi í bransanum. Ég hugsa að ég hafi byrjað fyrst um 1971, en byrjaði fyrir fullt nokkrum árum seinna,“ segir hann.

„Þetta hefur breyst svolítið. Þetta er allt orðið tölvuvætt,“ segir Arnþór og Gunnar tekur undir. „Það er ekki lengur þetta talstöðvargarg stanslaust,“ segir hann. „Einu sinni voru mælarnir upptrekktir. Það hefur margt breyst,“ segir hann.

Gunnar man upp á dag hvenær hann hóf störf. „Það var 18. maí 1966. Ég kom af vertíð suður í Grindavík. Ég byrjaði að vísu á sendibíl. Fjölskyldan vildi ekki að ég færi á sjó. Vildi sjálfsagt ekki tapa mér. Hræðsla við sjóinn, eitthvað svoleiðis,“ segir Gunnar.

Trúnaður númer eitt

Er leigubílastarfið í útrýmingarhættu? „Já, svo segir þingmaðurinn fyrrverandi Frosti Sigurjónsson. Það koma bara sjálfkeyrandi bílar. Það verður einhver þróun í þessu, það sem breytist ekki er að fólk þarf áfram aðstoð við að komast á milli staða,“ segir Gunnar og segist óska þess að áfram verði traust og góð samskipti hluti af því ferðalagi fólks. „Það er nefnilega það skemmtilegasta við starfið. Þetta er lifandi starf og leigubílstjórinn er í hringrás þjóðfélagsins með alls kyns farþega.“

Þið heyrið sögur og leyndarmál í bílunum. Geymið þið þau eða gleymið? „Trúnaður er númer eitt, tvö og þrjú í okkar starfi. Þetta er allt hér,“ segir Gunnar og bendir á höfuðið á sér. „Þetta hér er bara lokað hólf, fullt af leyndarmálum.“

Óli Valdimar er sestur á kaffistofuna og reynir að fá Arnþór til að taka ferð á Snæfellsnes daginn eftir fyrir sig. Það virðist nóg að gera.

Er góðærið farið að kippa í leigubílstjóra? „Hvaða góðæri?“ spyr Óli Valdimar. „Kjörin breytast ekki en ef þú vinnur kannski 24 tíma á sólarhring þá kannski má kalla það góðæri.“

Inni á kaffistofunni hefur greinilega lítið breyst í áratugi. Stólar og borð eru frá áttunda áratugnum og leigubílstjórar mega reykja að vild á kaffistofunni. „Við megum gera það sem við viljum hér, við eigum sjálf þetta félag,“ segir Óli Valdimar en Hreyfill hefur verið, frá stofnun 1943, stærsta bifreiðastöð landsins. Hún er rekin í samvinnufélagsformi og bifreiðarstjórarnir eru allir eigendur stöðvarinnar.

Steindórsmálið

En hvað skyldi hafa hreyft mest við þeim í öll þessi ár? „Steindórsmálið!“ segir Gunnar og stendur snögglega upp og fer út.

Hann er þó kominn jafnharðan aftur með plastpoka sem í er bústin og slitin skjalamappa. „Hér eru fjörutíu ár af skjölum sem varða Steindórsmálið,“ segir Gunnar. „Hér eru dómarnir, blaðagreinarnar og málsskjölin. Þetta var feiknarbarátta,“ segir hann.

Í stuttu máli snerist Steindórsmálið sem Gunnar vísar í um sölu á atvinnuleyfum bílstjóra. Eftir að erfingjar Steindórs Einarssonar seldu einkarekna stöð hans árið 1982 og atvinnuleyfin með upphófst barátta á milli kaupenda og annarra bílstjóra um sölu leyfanna. Málinu lauk með þeim hætti að salan var dæmd óheimil. Flestir bílstjóranna á nýrri stöð fengu þó ný leyfi. „Og hér er ég,“ segir Gunnar og segir stöð Steindórs hafa verið þá allra bestu í borginni.

Þeir sýna líka skopmyndir sem hæfileikaríkur leigubílstjóri hefur dregið upp af vinnufélögunum í ýmsum aðstæðum. Það er augsýnilegt að þeim leiðist ekki félagsskapur hver annars.

Traust viðskiptavina

Umræðan berst að hagsmunum leigubílstjóra. Þeim hefur fundist sótt að sér. Stjórnvöld sæki að þeim og vilji brjóta upp takmörkun á leyfum og akstri. Sótt sé að þeim bæði af þeim sem telji sig geta rekið leigubifreiðar án aðhalds og líka af þeim sem vilji láta aðra aka fyrir sig. Þá af þeim sem telja að lögmál markaðar eigi að ráða. Þeir eru hins vegar sannfærðir um að traust viðskiptavina á leigubílstjórum sé grundvöllur.

„Það er ábyrgðarhlutur að leyfa mönnum að keyra sem selja fíkniefni og bjór og fleira í tengslum við akstur. Þú ert alveg örugg ef þú kemst inn í leigubíl,“ segir Óli Valdimar og bætir við: „Og ef eitthvað gerist, þá er hægt að rekja það. Fólk treystir okkur fyrir börnunum sínum,“ segir hann.

Bílstjórarnir hafa allir orðið varir við ýmislegt misjafnt sem viðkemur mannlífinu.

„Það sem gengur á í bílnum, það sem er sagt í bílnum. Það er í bílnum,“ segir Óli Valdimar. „Ég segi fáar sögur. Bara þær sem ég er viss um að ekki er hægt að rekja eða margir segja.“

Lögreglan svifasein

Stundum er starfið hættulegt en bílstjórarnir eru allir sammála um að það sé sjaldan sem hætta steðji raunverulega að.

„Það er sjaldan sem eitthvað alvarlegt kemur upp á hvað varðar okkur sjálfa,“ segir Óli Valdimar.

„Það var svakalegt þegar það var skotið inn í bílinn hjá Grími grimma á Hverfisgötunni. Það fór maður út úr bílnum en í staðinn fyrir að koma með peningaveskið þá kom hann með riffil og fór að skjóta inn í bílinn. Við lendum auðvitað í einhverju. Ég geymi svona stóran hníf sem ég tók af einum,“ segir hann og býr til um 40 cm bil á milli handa.

Hvað gerið þið í svona aðstæðum? „Maður reynir bara að gera eitthvað. Oftast slysast maður til að gera eitthvað rétt og vera snöggur að því. Við erum með neyðarhnapp í bílunum okkar. Ég hef aldrei notað hann,“ segir Óli Valdimar og segir lögregluna svifaseina þegar eitthvað kemur upp á. „Sannast sagna þá er lögreglan sein að bregðast við útköllum. Í nágrannalöndunum snýst þetta um það hvor er á undan, lögreglan eða félagarnir. Hér eru það undantekningalaust félagarnir.“



Óli Valdimar segir trausta vináttu á milli félaganna á kaffistofunni.vísir/anton brink
Hömluleysið erfiðast

Á dögunum sagði ung kona frá því að leigubílstjóri hefði komið henni til bjargar þegar ferðafélagi hennar ætlaði að þröngva sér upp á hana. Kemur þetta fyrir? „Þetta gerist mjög oft. Þetta er svo leiðinlegt. Þessir hlutir sem gerast á nóttunni. Sumt er ekki gott að tala um. En það sem er erfiðast er þetta hömluleysi í fólki.

Áfengi er minnsta málið, dópneyslan er yfirgengileg og sum fíkniefni kveikja meira í hömluleysinu en önnur. Ég keyri helst ekki á nóttunni,“ segir Óli Valdimar.

En hvað er það þá við starfið sem heillar? Óli Valdimar veltir vöngum. „Tja, það er eiginlega ekkert heillandi við þetta. Maður festist bara í þessu. Yfirleitt þegar ég er búinn í ferðinni þá man ég ekki eftir henni. Ég legg það ekki á mig að muna. En hann Gunnar man eftir öllu,“ segir Óli Valdimar og bendir á vin sinn.

Þras og vinátta

Eruð þið öll miklir vinir sem eruð hér á kaffistofunni? Óli Valdimar hlær. „Menn þrasa alltaf hér. En það er ákveðið vináttumerki. Við Gunnar erum til dæmis aldrei sammála um eitt eða neitt. En á sama tíma þá gæti ég treyst honum fyrir hverju sem er.“

En eruð þið búnir að fara í Costco og skoða hvað dekkin kosta? „Já, ég fór að skoða. Dekkin kosta aðeins um hundrað þúsund krónur undir komin. Það er nokkuð gott og það eru dýrustu dekkin,“ segir Arnþór.

Nú hefur Ásdís bæst í hópinn og sest aftarlega við gluggann. 

Hvað finnst henni um hugmyndir um sjálfkeyrandi bíla? Er leigubílstjórinn að verða útdauður? „Þetta er ekkert langt frá því sem á eftir að gerast. Hann var svolítil geimbelja, hann Frosti, þegar hann ræddi þessi mál,“ segir hún og skellir upp úr.

Hvað finnst þeim um Borgarlínu? Líst þeim vel á áform um slíkan kost í borginni? „Bara vel, en er þetta ekki alltof dýrt, þarf ekki lágmark milljón íbúa til að þetta svari kostnaði?“ segir Óli Valdimar.

„Það er sama hvort það eru sjálfkeyrandi bílar, Borgarlína, einkabílar, leigubílar. Við þurfum áfram götur, við þurfum að viðhalda gatnakerfinu. Það verður greinilega ekki gert nema með sköttum á eldsneyti,“ segir hann.



Arnþór segir margt hafa breyst í áranna rás.vísir/anton brink
Gerum það sem fólk vill

Ásdís leggur sitt til málanna. „Öll þróun á að halda áfram. Við eigum ekki að hindra hana og verðum að fara eftir því sem fólk vill. Við erum á réttri leið en borgarstjórnin, í henni eru víðáttuvitleysingar. 

Ég vil að stjórnmálamenn í borginni vakni. Þeir eru svo takmarkaðir í hugsun. Það er til fólk sem getur ekki gengið. Það geta ekki allir hjólað. Það er stór hópur fólks sem reiðir sig á góðar samgöngur og gatnakerfið,“ bendir hún á og segir stóran hóp viðskiptavina sinna vera aldraða og öryrkja.

Óli Valdimar tekur undir og það er greinilegt að þetta er hitamál hjá leigubílstjórum. „Auðvitað er fínt að hjóla sér til heilsubótar ef þú getur komið því við. En þá skulum við muna að það gilda umferðarreglur um hjól líka. Mér sýnist þurfa að taka allt þetta hjólreiðafólk og testa það og jafnvel áfengismæla það.“

Ásdís segir uppbyggingu borgarinnar á hjólastígum jákvæða. „Það er gott mál að gera hjólastíga því hjólreiðafólk þarf að vera öruggt í umferðinni. En okkar sjónarmið eru þau að við erum að keyra mjög marga sem eru fatlaðir, öryrkjar, aldraðir. Þetta fólk er ekki að fara að hjóla eða ganga um í tuttugu mínútur á milli búða.“

Einstæð móðir og þurfti pening

Bæði Ásdís og Óli Valdimar búa í Breiðholtinu. „Breiðholtið, þar sem er eilíft góðæri,“ segir hann í gamansömum tón.

Ásdís byrjað að keyra leigubíl til að hífa upp tekjur sínar. „Ég er búin að keyra leigubíl síðan á síðustu öld. Ég var einstæð ung móðir og mig vantaði pening. Þetta var rosalega fínt. Ég tók rúnta um helgar. Þetta er ekki fjölskylduvænt starf en ég þurfti starf. Ég þurfti að borga út í íbúðinni. Mamma passaði og ég vann.“

Ásdísi tókst að koma undir sig fótunum. Hún var einstæð móðir til margra ára en fann síðar ástina. „Menn endast í þessu starfi í tugi ára. Þetta er ávanabindandi. Fólk getur svolítið stjórnað tímanum. Þótt starfið sé langt í frá að vera fjölskylduvænt þá er samt ekkert mál að hoppa heim ef stelpan veikist. Þá vinn ég bara lengur næsta kvöld.“

Ásdís segir starfið hafa breyst mikið síðustu ár. Það sé helst eldra fólk sem spjalli. „Áður var þetta alltaf spjall og gaman. Nú horfir fólk stjarft á skjáinn eins og uppvakningar.“

Erum við sjálfhverf kynslóð? „Já sennilega!“ „En samt, ekki er gamli skólinn betri. Þegar fólk byrgði innra með sér erfið mál og ræddi þau ekki? Við erum öðruvísi, eigum auðveldara með að ræða málin, segjum frá því ef við erum að rífast við makann en erum kannski á sama tíma líka uppteknari af okkur sjálfum. Ég sakna spjallsins,“ segir Ásdís. „Bara þessa hversdagslega spjalls.“

Bakkaði yfir rudda

Ásdís hefur einu sinni þurft að biðja um aðstoð á þeim rúmu tuttugu árum sem hún hefur starfað sem leigubílstjóri. „Ég varð að redda mér sjálf. Lögreglan kom seint á vettvang. Það var bara einn sem drakk aðeins of mikið í bílnum hjá mér og ég vildi ekki kyssa hann. 

Aumingjans kallinn og hann var rosalega reiður, greyið. Það endaði með því að hann var svo reiður að hann ætlaði að míga í bílinn hjá mér. Hann var þá búinn að rústa öllu í bílnum. Hann steig svona inn í bílinn og gerði sig tilbúinn að míga. Þá náttúrulega bakkaði ég bara. Ég bakkaði bara og ég held ég hafi farið yfir hann, ég veit það ekki,“ segir hún og hlær. 

„Ég mætti svo löggunni þegar ég var að keyra í burtu og sagði við þá: Hann liggur þarna einhvers staðar! En þetta var ekki neitt. Nú eru það hótanir með sprautunálum og alls konar ógeð. En ég hef ekki lent í neinu alvarlegu eftir þetta atvik.“

Ásdís segir oft beðið um konur sem bílstjóra.

„Þetta er karlastarf en það er rosalega mikið beðið um konur. Þá eru það konur sem hafa lent í kynferðisglæpum og eru bara hræddar. Eða þá að einhver er að láta sækja barn og er hræddur um það.“



Ásdís Ásgeirsdóttir hóf störf sem leigubílstjóri til að hífa upp tekjurnar. Hún var einstæð móðir og þurfti sveigjanleika. vísir/Anton Brink
Heimilisofbeldi í bíl

Þegar Ásdís er spurð um erfitt atvik í bílnum, eitthvað sem henni finnst erfitt að gleyma, tekur hún undir með félögum sínum að hún verði oft vitni að því þegar menn reyni að fá konur til við sig sem vilji það ekki.

„Við erum bundin trúnaði. Stundum tökum við atvik inn á okkur. Ég hef orðið vör við ótrúlega erfiða hluti. Ég keyrði hjón fyrir mörgum árum síðan. Ég get sagt frá þessu því ég er viss um að það getur enginn vitað hver þau eru. Hann var rosalega vondur við hana. Og hún sagði ekki orð. Ég endaði á því að stöðva bílinn við Miklubrautina og sagði við manninn: Þú ferð út hér. Þú ert ekki að fara heim með þessari konu. Hann mátti vakna, hann var búinn að hrauna yfir hana alla ökuferðina. Hún grét svo alla leiðina heim.

Svo hringja stundum konur og vilja vita hvert mennirnir þeirra eru að fara. Með hverjum þeir eru og fleira.

Ég hef ekkert heimild til að segja neitt. Ég hugsa að það sem hafi komið mér mest á óvart í þessum bransa séu framhjáhöldin. Það er svo mikið um þau.“

En ertu þá búin að missa trúna á ástinni? „Nei, alls ekki. Ég hef tekið þetta allt saman í sátt. Ég var í sjokki fyrst, ég var svo ung og saklaus þegar ég byrjaði að keyra og gat ekki ímyndað mér að fólk væri að halda svona framhjá. Svo ganga eiturlyf kaupum og sölum í bílnum og neyslan er í fullum gangi í bílnum líka. Þetta er allt erfitt að horfa upp á. En svona er lífið bara.

Fólk er alltaf að tala um að þetta sé svo hættulegt starf. En það er það ekki. Það er sjaldan sem eitthvað kemur upp því flest erum við gott fólk í þessu samfélagi.“

Gunnar Bílddal gluggar í möppu um Steindórsmálið.vísir/anton brink





Fleiri fréttir

Sjá meira


×