Íslenski boltinn

Logi: Ekkert skemmtilegra en að vinna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Logi Ólafsson, þjálfari Víkings.
Logi Ólafsson, þjálfari Víkings. mynd/Stefán
Logi Ólafsson, stýrði Víkingi R. í fyrsta sinn á heimavelli í langan tíma í kvöld og var mjög sáttur með sína menn, ekki síst vegna þess að þeir klóruðu sigur gegn Fjölni til baka eftir að hafa lent undir.

„Það var klaufagangur að fá á sig þetta mark vegna þess að mér fannst við byrja leikinn mjög vel,“ sagði Logi í samtali við Vísi eftir leikinn.

Þetta var annar leikurinn sem liðið spilar undir stjórn Loga en í þeim fyrri nældi liðið í stig á útivelli gegn KA eftir að hafa lent 2-0 undir. Um svipaða sögu var að ræða hér nema nú nældi liðið sér í öll stigin þrjú. Logi segir mikinn karakter búa í hópnum.

„Ég held að liðið hafi vitað það allan tíma að eftir að hafa náð að jafna, og eftir að hafa lent 2-0 undir gegn KA, þá býr þetta í þessu liði. Það var ekki um neina uppgjöf að ræða heldur að reyna að vinna leikinn sem við og gerðum,“ sagði Logi.

Þrátt fyrir yfirburði Víkings gekk þeim þó illa að skapa sér opin færi. Bæði mörk liðsins komu eftir föst leikatriði, víti og horn. Logi segir að liðið hefði átt að búa til betri færi úr þeim möguleikum sem liðið fékk en það hafi þó verið erfitt að mæta liði eins og Fjölni á þessum tímapunkti.

„Það er ekki heiglum hentt að lenda á móti liði eins og Fjölni á þessum tímapunkti sem fengu á sig fimm mörk í síðasta leik. Dagskipunin er að halda markinu hreinu. Það var við erfiða mótherja að etja í varnarleiknum hjá þeim þannig að það er að einhverju leyti skiljanlegt að við vorum ekki nógu beittir í því,“ sagði Logi.

Hann hefur nú stýrt liðinu í um það bil tvær vikur og er hann ánægður með að vera kominn aftur í stjórasætið eftir smá hlé frá leiknum.

„Mér líst vel á þetta. Það er verið að tala um að þetta sé skemmtilegra og eitthvað slíkt. Það er ekkert skemmtilegra en að vinna. Það er það sem gerir þetta skemmtilegt,“ sagði Logi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×