Erlent

May segir Trump hafa gert rangt með að gagnrýna borgarstjóra London

Kjartan Kjartansson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti fór með rangt mál þegar hann gagnrýndi Saqid Khan, borgarstjóra London, eftir hryðjuverkin á Londonbrúnni á laugardagskvöld, að sögn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Hún hafnar kröfum um að opinberri heimsókn Trump til Bretlands verði aflýst.

Morguninn eftir árásina þar sem sjö létu lífið og 48 særðust gagnrýndi Trump borgarstjóra London á Twitter fyrir að hafa sagt borgarbúum að ekkert væri að óttast. Sleit hann þar ummæli Khan úr samhengi. Borgarstjórinn hafði sagt íbúum London að engin ástæða væri að óttast þó að lögregulið yrði fjölmennara á götum borgarinnar eftir árásina.

Talsmaður Khan svaraði Trump með þeim orðum að borgarstjórinn hefði ekki tíma til að eltast við „illa upplýst“ tíst Bandaríkjaforseta. Það virtist fara öfugt ofan í Trump sem bætti enn í á Twitter.

„Ömurleg afsökun hjá borgarstjóra London Sadiq Khan sem þurfti að hugsa hratt um „engin ástæða til að óttast“ yfirlýsingu sína. Fjölmiðlar eru á fullu við að selja hana!“ skrifaði forsetinn.

Heimsóknin enn á dagskrá

May var spurð út í þessa fordæmalausu árás forseta Bandaríkjanna á borgarstjóra í bandalagsríki sem varð fyrir hryðjuverkaárás í dag.

„Ég tel að Donald Trump hafi haft á röngu að standa með það sem hann sagði um Sadiq Khan. Við höfum unnið með Sadiq Khan, flokkspólítik er sett til hliðar, við vinnum saman,“ sagði May og breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir.

Khan og Tim Farron, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, hafa kallað eftir því að fyrirhugaðri heimsókn Trump til Bretlands verði aflýst. May sagði hins vegar að heimsóknin væri enn á dagskránni og lagði áherslu á einstakt samband Bretlands og Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×