Íslenski boltinn

Fyrsti pistill Guðna Bergs sem formaður KSÍ: Koma svo!

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Bergsson.
Guðni Bergsson. Vísir/Stefán
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, hefur skrifað sinn fyrsta pistil inn á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands, en Guðni tók við formennskunni af Geir Þorsteinssyni í febrúar.

Guðni beinir orðum sínum í þessum fyrsta pistli sínum til allra knattspyrnuunnenda og stuðningsmanna og hvetur þá til að mæta á völlinn og hvetja liðið sitt í sumar.

Áhorfendatölur á leiki Pepsi-deildar karla hafa ollið nokkrum vonbrigðum í upphafi sumars þrátt fyrir að deildin sé að bjóða upp á mjög spennandi keppni og fullt af óvæntum úrslitum.

„Það er hluti af félagslífi margra að mæta á völlinn hvort sem er til þess að hitta gamla félaga úr boltanum eða góða vini úr hverfinu,“ skrifar Guðni og bætir seinna við:

„Framtíð fótboltans á Íslandi er svo sannarlega björt og öll getum við verið þátttakendur í henni með því að mæta á völlinn og styðja okkar lið,“ skrifar Guðni.

Pistill Guðna er ekki langur að þessu sinni en hann endar á hvatningarópi til fótboltaáhugafólks:

„Koma svo!,“ segir formaðurinn í lok pistilsins og nú er bara að vona að fólk fari að mæta betur á leikina til að búa til meiri stemmningu á knattspyrnuvöllum landsins.   

Það er hægt að lesa allan pistil með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×