Innlent

Árásin við Æsustaði sögð hrottaleg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla á vettvangi í gær.
Lögregla á vettvangi í gær. Vísir/Höskuldur Kári
Allt bendir til þess að líkamsárásin sem leiddi til dauða karlmanns um fertugt við heimili hans á Æsustöðum í Mosfellsdal á sjöunda tímanum í gærkvöldi hafi verið handrukkun. Maðurinn var á heimili sínu með konu og nýfæddu barni þegar gesti bar að garði.

Samkvæmt heimildum Vísis mætti hópur fólks að heimilinu á sjöunda tímanum í gærkvöldi og barði að dyrum. Kona mannsins fór til dyra en óskað var eftir því að ná tali af manni hennar.

Í framhaldinu á fólkið að hafa ráðist á manninn með járnkylfum, tekið hann hálstaki, hendur settar fyrir aftan bak og höggin látin dynja á manninum. Urðu nokkur vitni að árásinni og er því lýst að amerískum pallbíl, sem lögregla fjarlægði af vettvangi síðar um kvöldið, hafi verið ekið yfir fætur mannsins.

Einn hinna grunuðu er náinn vinur mannsins sem lést. Hinn látni tók stundum að sér verk fyrir manninn sem er góðkunningi lögreglunnar.

Sex voru handtekin, fimm karlmenn og ein kona, sem öll hafa komið við sögu lögreglu. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir hinum handteknu. Yfirheyrslur stóðu yfir fram á nótt.

 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×