Innlent

Þurfa ekki samþykki allra til að leigja út íbúðir

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Húsfélagið vildi fá það staðfest að hjónunum væri óheimilt að leigja íbúðirnar út til gistingar án samþykkis allra félagsmanna húsfélagsins.
Húsfélagið vildi fá það staðfest að hjónunum væri óheimilt að leigja íbúðirnar út til gistingar án samþykkis allra félagsmanna húsfélagsins. Vísir/Anton Brink
Hæstiréttur sýknaði í dag hjón, sem eru eigenda þriggja íbúða að Vatnsstíg 15,19 og 21 í Skuggahverfinu, af kæru Húsfélagsins 101 Skuggahverfi-1.

Húsfélagið vildi fá það staðfest að hjónunum væri óheimilt að leigja íbúðirnar út til gistingar án samþykkis allra félagsmanna húsfélagsins.

Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt húsfélaginu í vil, en íbúar höfðu kvartað undan ónæði sem hlaust af útleigu á íbúðunum.

Sjá einnig: Gæti breytt miklu fyrir Airbnb-gestgjafa

Húsfélagið nær yfir húsasamstæðurnar að Lindargötu 31 og 33, Vatnsstíg 13, 15, 17, 19 og 21 og Skúlagötu 12, sem skiptist í átta matshluta. Nánar tiltekið er um að ræða sjö hús með 79 íbúðum og eru eigendur þeirra 112 talsins.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Vatnsstígur 15, 19 og 21 væru sjálfstæðar húsfélagsdeildir innan húsfélagsins. Þar sem um sameiginleg innri málefni viðkomandi húsfélagsdeilda var að ræða en ekki málefni sem beindust að hagsmunum í sameign allra gat ekki komið til álita að hjónin þyrftu að leita samþykkis félagsmanna húsfélagsins utan umræddra húsfélagsdeilda fyrir útleigu íbúðanna.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar er húsfélaginu einnig skylt að greiða hjónunum allan málskostnað, eða um tvær og hálfa milljón króna.

„Þetta þýðir það að málið er nánast á byrjunarreit að því undanskyldu þó að menn vita að þetta er málefni hverrar húsfélagsdeildar en ekki húsfélags í heild,“ segir Valtýr Sigurðsson, lögmaður húsfélagsins, í samtali við Vísi.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×