Körfubolti

Fyrirliði KR fékk freistandi tilboð frá öðru félagi en fer ekki neitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson fagnar hér fjórða Íslandsmeistaratitlinum í röð með liðsfélögum sínum.
Brynjar Þór Björnsson fagnar hér fjórða Íslandsmeistaratitlinum í röð með liðsfélögum sínum. Víisr/Andri Marinó
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði Íslands- og bikarmeistara KR, hefur framlengt samning sinn við KR og fær því tækifæri til að lyfta Íslandsbikarnum fimmta árið í röð á næsta tímabili.

Brynjar fékk freistandi tilboð frá öðru íslensku félagi og það er að heyra á Brynjari að það var að toga í hann að yfirgefa Vesturbæinn og prófa eitthvað nýtt.

„Það hefði verið mjög skemmtilegt að takast á við það verkefni en maður er svo mikill KR-ingur að það hefði verið erfitt að slíta sig frá félaginu,“ sagði Brynjar Þór í viðtali við Andra Yrkil Valsson í Morgunblaðinu.

„Ég er ánægður að hafa loksins tekið ákvörðun. Það er þungu fargi af mér létt núna,“ sagði Brynjar Þór ennfremur í viðtalinu. Brynjar hefur bara leikið með KR hér á Íslandi og er leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi í úrvalsdeild karla. Hann lék eitt ár sem atvinnumaður í Svíþjóð en snéri aftur heim eftir það.

Brynjar Þór hefur orðið Íslandsmeistari sjö sinnum (2007, 2009, 2011, 2014, 2015, 2016 og 2017) og bikarmeistari þrisvar sinnum (2011, 2016 og 2017) og er því kominn í hóp sigursælustu körfubolta manna Íslands frá upphafi þrátt fyrir að vera ekki enn búinn að halda upp á þrítugsafmælið sitt.

KR getur unnið Íslandsmeistaratitilinn fimmta árið í röð á næsta tímabili og freistar þess auk þess að vinna tvöfalt þriðja árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×