Enski boltinn

Tony Adams: Vinalaus Wenger væri löngu búinn að fá sparkið frá Real Madrid

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger og Tony Adams eru ekki vinir.
Arsene Wenger og Tony Adams eru ekki vinir. vísir/getty
Tony Adams, fyrrverandi fyrirliði Arsenal, finnur til með Arsene Wenger, knattspyrnustjóra félagsins, vegna þess að hann er vinalaus að sögn Adams. Í viðtali við The Guardian hellir Adams sér yfir Frakkann. Hann segir Wenger fá of mikið greitt á meðan unglingaþjálfarar félagsins eru á lágum launum.

Adams er enn þá reiður eftir að Wenger kom í veg fyrir að hann sneri aftur til félagsins sem þjálfari. Adams fékk tækifæri sem þjálfari hjá Granada á síðustu leiktíð en það fór ekki vel.

„Ég var hjá Arsenal í 23 ár og svo er komið svona fram við mig? Þetta var til skammar. Ég er fimmtugur þannig ég eyddi næstum hálfri ævinni hjá Arsenal. Það er fjandans stytta af mér fyrir utan Emirates-völlinn!“ segir Adams.

„Wenger hefði verið rekinn eftir eitt ár hjá Real Madrid. Hann væri búinn að fara frá einu félagi til annars en hjá Arsenal ræður hann öllu. Stjórnin gerir ekkert. Arsene gerir bara það sem hann vill.“

„Hann á líka í skrítnu sambandi við peninga. Hann fær átta milljónir punda á ári en unglingaþjálfarar Arsenal fá 30.000 pund á ári. Unglingaþjálfarar Chelsea fá 90.000 pund. Taktu frekar sjö milljónir Arsene og hækkaðu laun unglingaþjálfaranna. Það er ekki eins og Arsene sé að nýta peningana sína í að halda flottar veislur fyrir vini sína. Hann á enga vini. Ég vorkenni honum aðeins,“ segir Tony Adams.

Arsenal tókst ekki að komast í Meistaradeildina á næstu leiktíð og Adams sér ekki fram á frábæra tíma á Emirates.

„Arsenal verður ekki nálægt því að vinna titilinn. Ég vona að Wenger hætti en mér er samt alveg sama því hann kom í veg fyrir að ég gæti starfað aftur fyrir félagið. Hann er frábær þjálfari en ekki sá besti sem ég hef starfað með,“ segir Tony Adams.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×