Lífið

Mæting er aðalatriðið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Það er bjart yfir stúdínunni þrátt fyrir hæsina.
Það er bjart yfir stúdínunni þrátt fyrir hæsina. Vísir/Anton Brink
Þegar hringt er í Ragnheiði Silju Kristjánsdóttur, nýbakaðan dúx Menntaskólans í Hamrahlíð, svarar alveg ótrúlega hás rödd. „Það kom trúbador í veisluna mína, við sungum dálítið mikið saman,“ segir hún til skýringar. 

„Ég söng líka á Vorvítamíntónleikum Hamrahlíðarkóranna á fimmtudaginn og það er búið að vera ansi mikið álag. Svo sleppti ég mér algerlega á útskriftardaginn, var samt ekki að drekka áfengi þótt því trúi enginn!“

Ragnheiður Silja varð stúdent af opinni braut í MH með áherslu á stærðfræði og þýsku. Meðaleinkunn hennar var 9,64. Hún þakkar skipulagi og góðu skammtímaminni árangurinn.

„Þó held ég að mæting í tíma sé aðal­atriðið, mæting kemur inn í allar einkunnir og þegar kemur að upprifjun fyrir próf þá er maður búinn að heyra allt áður. Svo er metnaður fyrir því að gera það sem maður á að gera mikilvægur og að skila öllu á réttum tíma.“

Fyrstu tvö árin í skólanum lærði Ragnheiður Silja á fiðlu og síðustu þrjú árin hefur hún sungið í kórnum. Svo spilar hún handbolta með meistaraflokki kvenna í Víkingi og er þar í markinu. En skyldi hún vera farin að skipuleggja framtíðina?

„Ég er að fara í inntökupróf í sjúkraþjálfun og ætla ekki að plana neitt annað fyrr en ég sé hvernig það fer. En ég verð á Íslandi næsta árið til að spila handbolta og hvort ég fer í háskólanám kemur í ljós í júlí.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×