Innlent

Bjarkey: Hver er þessi freki karl sem öllu ræður?

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. Vísir/Vilhelm
Þau voru stór orðin sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra lét falla í eldhúsdagsumræðum í gær um freka manninn svokallaða og hann verður að útskýra þau nánar, sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í störfum þingsins í morgun.

„Hver er það sem vill ekki breyta, hæstvirtur ráðherra?“ spurði Bjarkey.

Benedikt sagði í ræðu sinni í gær að stundum sé útlit fyrir að náttúrulögmál ríki hér á landi um að engu megi breyta í samfélaginu. Þá hafi Íslendingar áður fyrr fylgt orðatiltækinu: „Sá vægir sem vitið hefur meira,“ en að landsmenn segi í dag:

„Freki karlinn ræður, freki karlinn sem engu vill breyta og allt þykist vita. Hann segir: Þó að allt stefni í óefni skulum við aldrei, aldrei víkja frá þeirri stefnu sem ég hef ákveðið að sé rétt,” sagði Benedikt.

Tilbúin til að aðstoða í erfiðleikum

Bjarkey sagði stjórnarandstöðuna þurfa að fá að vita hver þessi freki karl sé og bauð fram aðstoð hennar – ef í harðbakka skyldi slá í stjórnarsamstarfinu. Hún sagði hins vegar að við fyrstu sýn sé útlit fyrir að Benedikt hafi verið að tala um Bjarna Benediktsson forsætisráðherra.

„Það er alveg ljóst, og það sjá það allir sem vilja sjá, að það er ágreiningur uppi í ríkisstjórninni. Þau eru ekki samstíga, þau eru ekki að fara sömu leið hvert með öðru, haldast allavega ekki í hönd. Það er alveg augljóst,“ sagði Bjarkey.

„Og auðvitað þarf ráðherra að skýra við hvern hann á, því ef hann á ekki við um forsætisráðherra og þá fylginauta sem eru með honum í ríkisstjórn þá þurfum við að vita hver það er sem hamlar því að hér sé hægt að koma á góðum breytingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×