Formúla 1

Bílskúrinn: Frekja í Furstadæminu Mónakó

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Sebastian Vettel var sennilega einfaldlega nógu frekur til  að vinna Mónakó í ár.
Sebastian Vettel var sennilega einfaldlega nógu frekur til að vinna Mónakó í ár. Vísir/Getty
Sebastian Vettel á Ferrari náði sér í 25 stiga forskot á Lewis Hamilton á Mercedes í heimsmeistarakeppni ökumanna, með því að vinna Mónakókappaksturinn um helgina.

Hver var örlagavaldurinn eða voru örlögin ákveðin af mannavöldum í keppninni? Verður Kimi Raikkonen með á næsta ári? En Jolyon Palmer og hans framtíð? Hver er raunveruleg staða innbyrðis á milli Ferrari og Mercedes? Hver var bestur í Mónakó? Allt þetta er til umfjöllunar í Bílskúrnum, uppgjöri hvers kappaksturs á Vísir.is.

Ferrari menn á brautinni í Mónakó.Vísir/Getty
Hvers vegna vann Vettel?

Kimi Raikkonen, liðsfélagi Vettel var á ráspól eftir frábæra tímatöku. Miklar getgátur voru uppi um hvort Ferrari liðið myndi skipa Finnanum að hleypa Vettel fram úr sér í ræsingunni. Vettel er með töluvert meira af stigum í heimsmeistarakeppni ökumanna og því líklegri kandidat ítalska stórveldisins í þá baráttu við Mercedes menn, þá líklegast Hamilton.

Vann Vettel af því Ferrari valdi að taka þjónustuhlé þannig að Raikkonen tefðist nógu mikið til að Vettel næði að stela forystunni? Stórt er spurt og svarið hlýtur að vera já. Augljósar herkænskumistök hefur Ferrari varla gert, Raikkonen sagði strax eftir keppnina að hann hefði ekki óskað eftir því að vera tekinn snemma inn. Hann kom beint út í talsverða umferð hægfara bíla á brautinni en á einhvern undraverðan hátt slapp Vettel við allt slíkt.

Formúlu 1 liðin erum með reiknimeistara bæði á brautinni og í bækistöðvum sínum sem reikna fram og til baka allarmögulegar útkomur þess að taka þjónustuhlé á hverri og einni stundu. Það er því ólíklegt að Ferrari liðið hafi ekki vitað nákvæmlega hver niðurstaðan yrði.

Að mati blaðamanns er það því frekar samviska reinkimeistara Ferrari sem brást Raikkonen en að snilldar akstur Vettel hafi skapað honum sigur.

Kimi Raikkonen þurfti hugsanlega að kyngja stoltinu til að tryggja sér nýjan samning.Vísir/Getty
Hvaða áhrif hefur annað sætið á framtíð Raikkonen?

Orðrómur er þegar kominn á kreik um að Raikkonen hafi fyrir keppnina verið boðin samningur um að aka fyrir Ferrari á næsta ári, gegn því að heimila Vettel að vinna keppnina í Mónakó. Af hverju þessa keppni kann þá einhver að spyrja, jú vegna þess að í Mónakó er nánast ómögulegt að taka fram úr og Hamilton var í töluverðum vandræðum. Þetta var því tilvalinn kappakstur til að koma rokna höggi á Mercedes og þá sérstaklega Hamilton.

Getur verið að Raikkonen hafi raunverulega vitað hver áætlunin væri fyrir keppni og sætt sig við það, eða ætli hann hafi ekki kveikt á perunni?

Raikkonen segir kannski ekki mikið en hann veit hvað er að gerast í keppnunum. Hann hlýtur að hafa gert sér grein fyrir hvað gerðist, ef hann tæki þjónustuhlé á þessum tíma. Hann mótmælti ekki og að því er best er vitað kvartaði hann ekki yfir þjónustuhléinu. Hann spurði einfaldlega hvort hann ætti að koma inn á þjónustusvæðið núna.

Öllum ökumönnum langar að vinna í Mónakó og kannski var það gjaldið sem hinn 38 ára Raikkonen þurfti að gjalda fyrir nýjan samning, að gefa frá sér allt að því unna keppni. Engin svör hafa komið við því hvort sú var staðan, né er sennilegt að þau komi nokkurtíman.

Jolyon Palmer í keppninni í Mónakó.Vísir/Getty
Palmer að færa Perez pálmann?

Jolyon Palmer, ökumaður Renault, fyrrum GP3 meistari og undrabarn, hefur ekki náð að fóta sig í Formúlu 1. Hann er án stiga á tímabilinu á meðan liðsfélagi hans, Nico Hulkenberg er með 14 stig.

Renault liðið kom aftur í Formúlu 1 við upphafi árs 2016 og varð til úr rústum Lotus liðsins. Liðið gat lítið annað en tekið þátt í fyrra sökum skamms undirbúningstíma. Í ár hefur verið talsverður stígandi í liðinnu og Renault hefur ráðið til sín mikið af starfsmönnum ásamt því að standa í gríðarlegum endurbótum á höfuðstöðvum sínum. Renault er komið til að vera í Formúlu 1. Það er því ljóst að framfarir á næstu árum eru afar líklegar. Renault framleiðir vélar og smíðar bíla, einunigs tvö önnur lið gera það í Formúlu 1 eins og staðan er núna. Ferrari og Mercedes sem eru einmitt í harðri baráttu á toppnum.

Palmer er þegar orðinn valtur í ökumannssæti sínum hjá Renault. Orðrómur er á kreiki um að fyrrum liðsfélagi Hulkenberg, Sergio Perez sé kominn langt í samningum sínum við Renault. Það væri stórt skref á ferli Perez sem ekur sem stendur fyrir Force India hefur gengið í gegnum mikla uppbyggingu með liðinu en nú má ætla að harla ólíklegt sé að Force India geti mikið meira í heimsmeistarakeppni bílasmiða nema með talsvert meira fjármagni eða vélasamstarfi við nýjan vélaframleiðanda.

Palmer gæti verið að færa Perez sæti sitt á silfurfati með því frati sem hann hefur boðið upp á undanfarið. Einungis tíminn mun leiða það í ljós.

Sebastian Vettel í forgrunn með Valtteri Bottas í bakgrunn á Mercedes bílnum.Vísir/Getty
Fákurinn gegn Silfurörvunum

Ferrari gegn Mercedes, þvílík stórveldi í bílasmíðum og kappakstri og þvílík barátta sem ætla má að muni eiga sér stað á komandi mánuðum.

Staðan eftir Mónakó er sú að Ferrari er með 17 stiga forskot. Liðin hafa raunar skipst á að leiða keppni bílasmiða eftir hverja einustu keppni tímabilsins.

Nú hafa keppnir farið fram á öllum tegundum brauta, allt frá breiðum brautum með löngum beinum köflum og löngum beygjum eins og í Kína og yfir í þröngar götubrautir þar sem varla komast tveir bílar hlið við hlið. Ekki hefur verið hægt að draga neina skýra línu og segja að annað liðið sé raunar betra en hitt. Eina sem víst er, er að Ferrari á auðveldara með að fá dekkin inn á rétt hitastig og Mercedes virðist þar af leiðandi fara verr með sín dekk.

Daniel Ricciardo brosti sínu breiðasta (sem er býsna breitt) eftir að hafa nælt í verðskuldað þriðja sæti.Vísir/Getty
Ökumaður keppninnar?

Vettel? Nei, ekki beint, hann fékk fyrsta sætið full mikið upp í hendurnar. Daniel Ricciardo hins vegar ræsti fimmti og endaði þriðji með stórkostlegum akstri. Hann var besti ökumaður helgarinnar að mati blaðamanns.

Ricciardo náði fram úr Valtteri Bottas á Mercedes og liðsfélaga sínum hjá Red Bull, Max Verstappen í gegnum þjónustuhlé. Hann ók stórkostlega eftir sitt þjónustuhlé og áður en hinir tveir fyrrnenfndu tóku sín hlé. Hann náði með því að strauja fram hjá þjónustusvæðinu á meðan Bottas og Verstappen sátu þar inni og létu þjónusta sig. Ricciardo var stórksotlegur og nýtti það að aflið er ekki allt í Mónakó til hins ítrasta.


Tengdar fréttir

Raikkonen: Þetta rennur ekkert alltof ljúft niður

Sebastian Vettel vann í Mónakó, fyrsti sigur Ferrari í Furstadæminu Mónakó síðan 2001. Kimi Raikkonen varð annar eftir að hafa tapað forystunni til Vettel í gegnum þjónnustuhlé. Hver sagði hvað eftir keppnina?

Kimi Raikkonen á ráspól í Mónakó

Kimi Raikkonen á Ferrari var fljótastur allra í tímatökunni fyrir Mónakókappaksturinn sem fram fer á morgun. Sebastian Vettel varð annar á al-rauðri fremstu rásröð á morgun.

Sebastian Vettel vann í Mónakó

Sebastian Vettel kom fyrstur í mark í Furstadæminu Mónakó. Kimi Raikkonen fullkomnaði svo dag Ferrari í öðru sæti og Daniel Ricciardo varð þriðji á Red Bull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×