Lífið

Engar svuntur við eldhúsdagsumræður

Benedikt Bóas og Stefán Þór Hjartarson skrifa
Það voru skiptar skoðanir um klæðnað Katrínar Jakobsdóttur.
Það voru skiptar skoðanir um klæðnað Katrínar Jakobsdóttur. Vísir/Stefán
Fréttablaðið leitaði til nokkurra sem hafa góða tískuvitund og spurði álits á fólkinu í Eldhúsdagsumræðum á Alþingi.

Margir voru nefndir en þessir fjórir fengu flest atkvæði. Þá fékk forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir, mörg stig fyrir glæsileika.

Katrín Jakobsdóttir



„Það þarf einhver að fara að ráða stílista fyrir þessa elsku. Langar að sjá hana í fallegum jarðlitum og sniðum sem fara henni vel.“

„Kata var verst klædd í gær. Ég beið eftir því að dvergarnir sjö myndu poppa upp úr pontunni.“

„Katrín var sumarleg og frískleg. Kjóllinn kallar fram það sem kannski skilur Katrínu frá hinu hefðbundna stjórnmálafólki.“

„Þessi kjóll (eða bolur) er ekki beinlínis að mínu skapi. Litirnir rekast hver á annan, guli bekkurinn í miðjunni sker Katrínu svolítið auk þess sem flíkin virðist aðeins of víð akkúrat þar svo efnið gúlpar í hliðunum. Og ég fíla hvorki ermarnar né ermasíddina. 

Katrín hins vegar fær prik fyrir að þora að vera öðruvísi í fatavali og falla ekki inn í alþingisnormið.“

„Hressandi sló hún tóninn á Alþingi með einkar litaglöðum klæðnaði. Bjartir litir og áberandi hálsmen. Fágað en þó sumarlegt.“

Einhverjum álitsgjafanna sárnaði að Sigurður Ingi bæri ekki þumalhring.Vísir/Stefán

Sigurður Ingi Jóhannsson

„Það þarf að fara biðja Herragarðinn um að fara selja stjórnmálamönnum aðrar skyrtur. Þessar „wide collar“ skyrtur fara ekki hverjum sem er og þú þarft að bera bindishnút með reisn ef þú ætlar að vera í „wide collar“ skyrtu.“

„Var fulltrúi landsbyggðinnar og var heiðarlegur í útliti.“

„Þegar Sigurður Ingi fékk leiðtogahlutverk þá var maður að vona að þarna væri „fashion-icon“ fætt; því hann mætti á sjónarsviðið með þumalhring og fallegan klút um hálsinn. En svo reyndust þetta bara vera tilviljanir; hann var kvefaður og því með klút og lék sér oft að því að setja giftingahringinn á þumalinn því þumalputtinn hans og baugfingur eru jafn þykkir. Ég hefði viljað sjá Sigurð Inga með klútinn í gær.“

„Hér er ekki mikið að gerast, hefðbundin jakkaföt og virka svolítið þröng um upphandleggina. Ég kann hinsvegar að meta bindið. Passar vel við fötin og er í svona beinu sniði sem ég fíla.“

„Sigurður Ingi er ekki þekktur fyrir að taka áhættur í fatavali. Hvít skyrta og blá/svört jakkaföt. Ekkert sem stingur í augun. Ekki einu sinni þumalhringur?“

Að mati álitsgjafa Fréttablaðsins hefði Benedikt mátt velja sér annað bindi.Vísir/Stefán

Benedikt Jóhannesson

„Mér þætti gaman að sjá Fjármálaráðherra í sér saumuðum jakkafötum. Hann er frekar fastur í gömlu fari. Lita val á bindinu er ekki að gera mikið fyrir hann, en jakkafötinn eru þó skárri en þau ljósu sem hann notar of oft.“

„Fannst hann reffilegur en bindið hans fær falleinkunn því miður.“

„Benedikt hefur mikið verið að vinna með þykkari bindin, sem virkar ágætlega fyrir hann. Þetta er líka nokkuð fallegt bindi og er eiginlega ástæðan fyrir því að hann lúkkar ekki alveg eins og hinn týpíski stjórnmálamaður.“

„Ég fæ það líka á tilfinninguna að jakkinn sé aðeins of stór. Bindið er ekkert augnakonfekt og bindishnúturinn of lítill.“

„Aftur munstrað bindi - í grænum tónum sem passar ágætlega við gráblá jakkafötin. Þau mættu hinsvegar passa betur á hann, sýnist þau vera í víðari kantinum.“

„Það er auðséð að hér er á ferðinni fyrrum formaður Hollnemafélags MR. Benni er að vinna með þetta “einkavæðum heilbrigðiskerfið en samt séntilmaður” vibe en það felur ekki þetta Poltergeist bindi sem allir sogast inní þegar þeir sjá það berum augum.“

Logi var tanaður, töff og kragalaus.Vísir/Stefán

Logi Einarsson

„Hann er yfirleitt ekki mikið að klæða sig upp og crew neck er hans stíll. Kann að meta þessa samsetningu hjá Loga.“

„Að hann hafi þorað kragalaus inn í þennan dýragarð finnst mér magnað.“

„Af þessum finnst mér heildarlúkkið á Loga best. Hann er að vinna með þétt og gott tan sem kallast skemmtilega á við hvíta skyrtuna og grátt skeggið.“

„Jakkinn er ekkert að kveikja í mér en samt allt í lagi, teinótt er ágætt, en ég elska þessa skyrtu. Öðruvísi og töff og skemmtileg tilbreyting frá bindunum.“

„Það er alltaf hægt að treysta á að Logi klæðist einhverju óhefðbundnu í ræðustól Alþingis. Kragalausa skyrtan segir sumar og sól, sem mér sýnist Logi hafa fengið nóg af undanfarið.“

„Hann er nettastur því að hann notar greinilega ekki gleraugun þegar hann fer í ljós.“

Álitsgjafarnir voru í heild sammála því að Óttarr geti ekki farið að breyta um stíl úr þessu.Vísir/Stefán

Óttarr Proppé

„Mér hefði fundist gaman að sjá hann kannski í svörtum rúllukraga í tilefni dagsins.“

„Það þarf einhver að fara að kveikja í þessum fötum sem eru að byrja að gróa við Óttar Proppé.“

„Óttarr verður að vera svona, annars er hann ekki Óttarr því miður. Ef ég sæi Óttar einn daginn ekki í karrígulum jakkafötum færi ég sennilega í borgaralega handtöku.“

„Í einhverri Batman-myndinni var sýnt inn í fataskápinn hans Bruce Wayne og þar héngu tugir leðurblökubúninga á herðatrjám. Ég ímynda mér – og eiginlega vona – að sama sé uppi á teningnum hjá Óttari Proppé. Vonandi á hann nóg af þessum karrígulu fötum.“

„Heilt yfir þá er hann með lúkk sem virkar 100% fyrir hann. Ég verð samt að setja út á rúllukragabolinn, eins og hann sé aðeins of stór undir þessi föt og búlgar því á bringunni sem dregur heildarútlitið niður.“

„Sko, Óttarr hefur alltaf verið einn best klæddi stjórnmálamaður landsins en nú má hann alveg fara að flikka upp á fataskápinn og bjóða upp á einhverjar nýjungar.“

Flestir álitsgjafanna voru sammála um að nýja lúkkið hennar Birgittu væri frekar vel heppnað.Vísir/Stefán

Birgitta Jónsdóttir

„Jú, hún er mjög frjáls með klæðaburð. Ljósa hárið gerir hana örlítið blíðari.“

„Kom inn með nýtt hár en hefði betur komið með derhúfu.“

„Þessi umpólun á hennar lúkki hefur heppnast stórkostlega. Gott lúkk.“

„Veit ekki alveg með kragann á skyrtunni eða blússunni sem er að gægjast þarna upp úr, skyrtan virkar of þykk og krumpuð. Hálsmenið er klossað og töff og passar vel við.“

„Birgitta ákvað að vera í svörtu frá toppi til táar og með stórt svart hálsmen. Ég get ekki séð betur en hún sé með gulllitaðar neglur, rokkprik á það.“

„Sumar-Birgitta er komin til að vera. Þessir ljósu lokkar lýsa þingsalinn upp og til þess að halda í dýnamíkina dregur hún fram svörtu dragtina og svarta glingrið. Ótvíræður sigurvegari.“

Jón Gunnarsson var talinn smekklegur og klassískur.Vísir/Stefán

Jón Gunnarsson

„Klæddur eins og stjórnmálamaður af gamla skólanum. Valdsmannsleg blá föt, hvít skyrta og blátt bindi. Engir sénsar teknir, allt bara beint áfram.“

„Blá föt, blátt bindi og hvít skyrta með fallegum kraga. Bindið hæfilega breytt. Þetta er klassískt og virkar.“

„Sýnist þessi jakkaföt vönduð og vel sniðing en samt mjög týpísk. Bindishnúturinn er of lítill og mynstrið í bindinu virkar pínu pirrandi. Annar myndi ég segja að þetta séu bestu jakkafötin í þessum hóp.“

„Hann klæddi sig í stíl við flokk sinn - blátt alla leið. Hann fær prik fyrir skemmtilega munstrað bindi sem gerir fatnaðinn nútímalegri.“

Álitsgjafar

Birna Sif Magnúsdóttir framleiðandi hjá Stöð 2, Álfrún Pálsdóttir ritstjóri Glamour, Kjartan Atli Kjartansson fjölmiðlamaður, Gunnar Birgisson íþróttafréttamaður á RÚV, Guðrún Vaka Helgadóttir ritstjóri WOW magazine, Jóhann Kristófer Stefánsson tónlistarmaður og tískuséní, María Guðjohnsen samfélagsmiðlastjarna, Hörður Snævar Jónsson ritstjóri 433.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×