Innlent

Einn stjórnarþingmaður greiddi ekki atkvæði með jafnlaunavottun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í dag, en hann greiddi atkvæði með jafnlaunavottun jafnréttismálaráðherra í kvöld.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í dag, en hann greiddi atkvæði með jafnlaunavottun jafnréttismálaráðherra í kvöld. vísir/eyþór
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var eini stjórnarliðinn sem ekki greiddi atkvæði með frumvarpi Þorsteins Víglundssonar, jafnréttismálaráðherra, á þingfundi í kvöld en frumvarpið var samþykkt með þó nokkrum breytingum og hefur gengið til þriðju umræðu.

Allar líkur eru því á að jafnlaunavottun verði að lögum í kvöld eða nótt en þingmenn Pírata greiddu ýmist atkvæði gegn greinum frumvarpsins eða sátu hjá. Þeir gagnrýndu meðal annars að með lögunum væri verið að benda á staðal sem væri ekki opinn almenningi og þannig skorti gagnsæi í málinu.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði með frumvarpinu en Vísir sagði frá því í byrjun apríl að Brynjar myndi ekki greiða atkvæði með jafnlaunavottuninni. Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, greiddi einnig atkvæði með málinu en hún lét hafa eftir sér í viðtali fyrr í vetur að ekkert væri hægt að fullyrða um kynbundið misrétti á launamarkaði.

Jafnlaunavottun er einmitt ætlað að vinna gegn kynbundnum launamun en frumvarpið hefur sætt gagnrýni og var mörgum þingmönnum stjórnarandstöðunnar tíðrætt um það í atkvæðagreiðslu að málið hefði komið illa unnið inn í þingið. Þá væri það ekki „patent“-lausn fyrir launamun kynjanna heldur lítið skref á réttri leið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var einn þeirra stjórnarandstöðuþingmanna sem kvöddu sér hljóðs. Sagði hann Pírata vera „rödd skynseminnar“ í málinu og hrósaði þeim fyrir það. Kvaðst Sigmundur jafnframt hafa verið sammála öllu því sem þeir hefðu sagt í umræðu um málið.

Þingfundi lauk um tíuleytið en hann hefst aftur klukkan 22:30 og mun væntanlega standa fram á nótt. Enn á eftir að skipa dómara við Landsrétt, taka fjármálaáætlun til atkvæðagreiðslu í síðari umræðu og svo greiða atkvæði um fjölmörg frumvörp sem verða þá að lögum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×