Lífið

Uppljóstrarinn sem Obama frelsaði fyrr

Snærós Sindradóttir skrifar
Chelsea Manning var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2013 í tuttugu ákæruliðum. Hún var sakfelld fyrir að leka hundruðum þúsunda leynilegra gagna, meðal annars um hernaðaraðgerðir Bandaríkjahers í Írak og Afganistan.
Chelsea Manning var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2013 í tuttugu ákæruliðum. Hún var sakfelld fyrir að leka hundruðum þúsunda leynilegra gagna, meðal annars um hernaðaraðgerðir Bandaríkjahers í Írak og Afganistan.
Fyrstu skref frelsisins!!“

Þessi skilaboð birti Chelsea Manning á Twitter-aðgangi sínum á miðvikudag undir mynd af glænýjum svarthvítum Converse-skóm. Síðar sama dag mátti sjá Chelsea fagna frelsinu með langþráðri pitsusneið og um nóttina köldu kampavínsglasi.

Chelsea Manning var dæmd í 35 ára fangelsi árið 2013 í tuttugu ákæruliðum. Hún var sakfelld fyrir að leka hundruðum þúsunda leynilegra gagna, meðal annars um hernaðaraðgerðir Bandaríkjahers í Írak og Afganistan.

Gögnin innihéldu meðal annars myndband sem varð sem áfall fyrir heimsbyggðina en það sýndi bandaríska hermenn ranglega tilkynna um árás á sig og réttlæta þar með árás úr lofti á saklausa borgara.

Myndbandið var tekið úr þyrlu bandarískra hermanna þann 12. júlí 2007 þar sem þyrlur sveimuðu yfir Bagdad og sýndi þrjár árásir. Í fyrstu árásinni létu sjö manns lífið, þar á meðal blaðamaður á vegum Reuters. Annar blaðamaður á vegum Reuters, Saeed Chmagh, slasaðist. Seinni árásin beindist að bílstjóra sem reyndi að koma Chmagh til bjargar. Í þeirri árás létust blaðamaðurinn og bílstjórinn. Tvö börn bílstjórans, sex og níu ára, slösuðust.

Í þriðju árásinni hófu hermennirnir skothríð á byggingu með svokölluðum AGM-114 Hellfire eldflaugum.





Bill Schwalb sells posters of Chelsea Manning in the Castro District of San Francisco, California on May 17, 2017, during a celebration for Manning's release. Manning, the transgender army private jailed for one of the largest leaks of classified documents in US history, was released from a maximum-security prison in Kansas May 17, after seven years behind bars. / AFP PHOTO / Josh Edelson
Chelsea Manning gegndi herþjónustu í Írak tveimur árum síðar í upplýsingadeild hersins sem greinandi. Hún hafði aðgang að háleynilegum skjölum og skýrslum hersins. Manning leið illa í hernum, lýsti vonleysi og einmanaleika á samfélagsmiðlum og mætti seint og illa til vinnu. Mánuði eftir að hún kom til Íraks setti hún sig í samband við Wikileaks.

Eftir aðeins þrjá mánuði í starfi hafði Manning lekið hundruðum þúsunda leynilegra skjala Bandaríkjahers til samtakanna og varpað ljósi á stríðsglæpi og pyndingar hersins í Írak, Afganistan og Guantanamó fangelsinu.

Chelsea var handtekin fimm mánuðum síðar eftir að hakkarinn Adrian Lamo sagði til hennar. Nokkrum dögum áður, þann 22. maí, hafði hún játað lekann við Lamo í netspjalli. Tímaritið Wired birti samtalið eftir að Adrian hafði sagt til Manning.

Brot úr samtali Lamo og Manning, Manning var skráð sem Bradass87:

21 maí 2010

Bradass87: Hæ

Hvað segirðu gott?

Ég er greinandi upplýsinga hjá hernum, staðsett í Austur-Bagdad og bíð þess að vera send heim vegna „aðlögunaravanda“.

Þú ert örugglega upptekinn...

Ef þú hefðir fordæmalausan aðgang að leynilegum skjölum í fjórtán tíma á dag, sjö daga vikunnar í rúmlega átta mánuði, hvað myndir þú gera?



Nokkrum tímum síðar sendi Bradass87 link á Wikipedia-grein um Wikileaks þar sem fjallað var um loftárásina í Bagdad og sagði „Þetta er það sem ég geri fyrir vini mína.“



22 maí 2010

Bradass87: Ég trúi ekki að ég sé að fara að játa þetta fyrir þér.

Ég hef verið einangruð svo lengi... Mig langaði bara að vera almennileg, lifa eðlilegu lífi... en atburðir neyddu mig til að finna út leið til að lifa af... nógu klár til að vita hvað gengur á en of hjálparlaus til að gera nokkuð í því... það tók enginn eftir mér :'(

Manning segir Lamo að hún hafi látið Wikileaks í té hundruð þúsunda skjala. Lamo spyr hvaða hneyksli skjölin gætu afhjúpað og Manning bendir á eitt. 

Bradass87: Það var eitt sem var í raun prufa. Leynilegt skjal frá bandaríska sendiráðinu í Reykjavík um Icesave frá 13. janúar 2010. 

Niðurstaðan var sú að íslenski sendiherrann í Bandaríkjunum var kallaður heim og rekinn. 

Lamo: Eitthvað sem á eftir að birtast?

Bradass87: Ég þyrfti að spyrja Assange.



Lamo: Af hverju þarftu að bera það undir hann?



Bradass87: Ég þarf þess ekki... Ég vil bara að efnið fari út... Ég vil ekki vera hluti af því.

Ég er heimildamaður, ekki sjálfboðaliði. Ég meina, hátt settur heimildamaður... og ég hef skapað samband við Assange... En ég veit ekki mikið meira en hann segir mér, sem er mjög lítið.

Það tók mig fjóra mánuði að staðfesta að manneskja sem ég var í samskiptum við væri í raun Assange.



Lamo setti sig í samband við bandarísk heryfirvöld og sagði að Manning hefði sagst hafa lekið myndbandinu af loftárásinni. Hann sagði ástæðuna fyrir því að hann sagði til Manning vera þá að mannslíf væru í húfi. Manning væri á stríðssvæði að reyna að soga upp eins mikið af leynilegum upplýsingum og hún gæti.





epa03807965 US Army Private Bradley Manning (C) leaves the courtroom at Fort Meade, Maryland, USA, 30 July 2013. Private Bradley Manning was acquitted by a US military judge on the key charge of aiding the enemy in the Wikileaks case, but he still faces up to 144 years in jail for his conviction in lesser charges. The judge, Colonel Denise Lind, found Manning guilty on 19 of 21 charges that had been brought against the 25-year-old soldier. Manning has admitted to lifting an estimated 700,000 classified diplomatic and military documents from the US government system. Manning, who has become a cause celebre of free information advocates on the internet in the three years since his arrest, gathered the documents when he worked as an intelligence analyst in Iraq. The sentencing phase could begin as early as 31 July. EPA/JIM LO SCALZO
Manning var handtekin 27. maí 2010 og dæmd fyrir brotin þremur árum síðar. Hún var vistuð í einangrun vegna sjálfsvígshugsana eða tilrauna til sjálfsvígs á meðan á fangelsisvist hennar stóð, varð reglulegur greinahöfundur hjá The Guardian árið 2015 og hefur þar skrifað um frelsi til upplýsinga, stríð og tíma sinn innan veggja fangelsisins.

Manning er laus úr haldi sem heimsfrægur uppljóstrari og fagnað af samfélagi hinsegin fólks. Hún er álitin svikari á meðal margra bandarískra hermanna og íhaldsmanna í Bandaríkjunum. Hún hefur gefið til kynna að hún vilji búa í Maryland í Bandaríkjunum en aðeins tíminn mun leiða í ljós hvað hún tekur sér fyrir hendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×