Erlent

Assange áfram í sendiráðinu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Assange flutti ávarp af svölum sendiráðs Ekvador í gær.
Assange flutti ávarp af svölum sendiráðs Ekvador í gær. vísir/epa
Sænsk saksóknaryfirvöld ákváðu í gær að fella niður rannsókn á meintri nauðgun Julians Assange, stofnanda WikiLeaks. Assange hefur eytt tæplega fimm árum í sendiráði Ekvador í London til að forðast handtöku og mögulegt framsal. Yfirvöld í Bretlandi segjast hins vegar munu handtaka Assange fyrir smávægileg brot um leið og hann stígur fæti á breska grund.

Þrátt fyrir að Svíar hafi fallið frá saksókn sinni er talið ólíklegt að Assange yfirgefi sendiráðið. Í Bretlandi bíður hans refsing fyrir að hafa rofið skilyrði lausnar gegn tryggingu og þá vilja bandarísk yfirvöld endilega hafa hendur í hári hans vegna uppljóstrana WikiLeaks.

„Þetta er mikilvægur sigur fyrir mig,“ sagði Assange þegar hann ávarpaði fjölmiðla og aðra sem safnast höfðu saman fyrir utan sendiráð Ekvadors, af svölum sendiráðsins í gær. Það var samróma álit viðstaddra að Svíinn væri fölleitari en áður enda ekki yfirgefið húsið í tæp fimm ár.

„Málinu er þó langt frá því að vera lokið. Stríðið, hið raunverulega stríð, er bara rétt að byrja,“ bætti hann við. Hann sagði einnig að WikiLeaks myndi halda áfram að berjast fyrir gagnsæi hjá stjórnvöldum og rétti manna í stafrænum heimi. Í yfirlýsingu frá breskum lögregluyfirvöldum sagði að þar í landi biði Assange refsing vegna vægari brota. Lögreglumönnum í London hefði verið falið að handtaka Svíann ef hann kæmi úr fylgsni sínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×