Viðskipti innlent

Happ vill lögbann á vörumerki Emmessíss

Haraldur Guðmundsson skrifar
Happís hét áður Toppís en Emmessís breytti nafninu að kröfu Kjöríss.
Happís hét áður Toppís en Emmessís breytti nafninu að kröfu Kjöríss. vísir/gva
Eigendur veitingastaðarins Happs undirbúa lögbannskröfu fyrir Sýslumanninum í Reykjavík á notkun Emmessíss á vörumerkinu Happís. Framkvæmdastjóri ísframleiðandans segir fyrirtækið ætla að láta reyna á einkaleyfi þess á vörumerkinu. 

„Við áttum í upphafi vinsamlegan fund með þeim en málið er komið í hnút. Aðalástæðan er sú að við erum búin að byggja upp í tíu ár fyrirtæki sem heitir Happ sem stendur fyrir hollustu og það er afar skaðlegt fyrir okkur að nafnið sé bendlað við vöru sem inniheldur viðbættan sykur og sælgæti,“ segir Unnur Pálsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Happs.

Unnur Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Happ.
Emmessís kynnti Happís í byrjun apríl en varan hét áður Toppís og kom fyrst á markað í nóvember. Nafninu var breytt eftir að Sýslumaðurinn í Reykjavík lagði lögbann á notkun Emmessíss á vörumerkinu Toppís að beiðni Kjöríss í Hveragerði. Líkt og kom fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, á miðvikudag hafa eigendur Kjöríss stefnt Emmessís fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna málsins.

„Niðurstaðan hjá okkur eftir langa leit að öðru nafni var Happís og hugsunin að baki er að fólk sé að gera sér glaðan dag. Strax kemur upp sú ábending að það sé til veitingastaður sem heitir Happ sem einnig er með vörur í verslunum. Við fórum þá til okkar lögfræðinga og þá kom í ljós að enginn var með nafnið Happís skráð hjá Einkaleyfastofu en þetta var í desember,“ segir Ragnar Birgisson, framkvæmdastjóri Emmessíss.

„Í kjölfarið sóttum við um einkaleyfi á Happís og fengum það. Við höfum nú tvo valkosti eða að hætta með nafnið í annað skiptið og byrja upp á nýtt með öllu sem því tilheyrir. Eða við getum treyst því að einkaleyfið sem við höfum sé í gildi og á það ætlum við að láta reyna,“ segir Ragnar.

Að sögn Ragnars ákvað Emmessís að hefja sölu á Happís áður en andmælaréttur hjá Einkaleyfastofu var liðinn. Ástæðan var sú að fyrirtækið vildi koma vörunni í sölu fyrir páska.

„Við erum búin að skila inn mótmælum til Einkaleyfastofu. Við erum ekki með einkaleyfi á orðinu Happís en framleiðum vörur sem heita meðal annars Happsósa, Happsalat og Happbrauð. Við erum núna að leita til okkar samstarfsaðila um að þeir standi með okkur og selji ekki okkar vöru við hliðina á Happís svo viðskiptavinir okkar ruglist ekki í ríminu,“ segir Unnur.


Tengdar fréttir

Kjörís og Emmessís takast á fyrir dómi

Sýslumaðurinn í Reykjavík lagði lögbann á notkun Emmessíss á vörumerkinu Toppís. Stjórnendur Emmessíss breyttu nafninu, hafa gagnstefnt Kjörís í Hveragerði og vilja bætur. Verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×