Innlent

Ný meinvörp fundust í lifur Stefáns

Samúel Karl Ólason skrifar
Stefán Karl Stefánsson.
Stefán Karl Stefánsson. Vísir/Andri Marinó
Tvö ný meinvörp hafa fundist í lifur Stefáns Karls Stefánssonar, sem greindist með krabbamein í fyrra. Læknar telja þó að þau liggi utarlega og vel sé hægt að fjarlægja þau með uppskurði. Þetta kemur fram á Facebook síðu Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur, eiginkonu Stefáns, en þau munu á næstu dögum fara til Kaupmannahafnar þar sem Stefán verður settur í jáeindaskanna.

Skanninn sá mun gefa læknum frekari upplýsingar um hvar meinvörpin eru og fleira. Steinunn Ólína segir að staðan verði endurmetin komi eitthvað fleira í ljós.

Hún segir þungbært að þurfa að bíða þeirra svara.

„Við erum eðlilega hnuggin og ósköp aum yfir þessum nýfengnu fréttum en jafnframt fullviss um það að Stefán er í góðum höndum og allt verður reynt til að bæta heilsu hans.“

Stefán greindist með gallgangakrabbamein í fyrra og lauk krabbameinsmeðferð nú í apríl þar sem æxlið var fjarlægt.

Einlægt viðtal við leikarann knáa birtist á Vísi stuttu eftir að hann greindist. Í viðtalinu talaði Stefán um lífið, veikindin og sorgarferlið sem hann gekk í gegnum í kjölfar greiningarinnar.




Tengdar fréttir

Stefán Karl þakkar fyrir stuðninginn

"Samhugurinn er svo máttugt afl að mig hafði aldrei órað fyrir áhrifunum fyrr en nú þegar ég reyni það á eigin skinni,“ segir leikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×