Körfubolti

Meistararnir niðurlægðu Boston | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tristan Thompson treður yfir varnarlausan Marcus Smart. Myndin er lýsandi fyrir leikinn í nótt.
Tristan Thompson treður yfir varnarlausan Marcus Smart. Myndin er lýsandi fyrir leikinn í nótt. vísir/getty
Cleveland Cavaliers niðurlægði Boston Celtics á þeirra eigin heimavelli í öðrum leik liðanna í úrslitum Austurdeildar NBA í nótt. Lokatölur 86-130, Cleveland í vil.

Cleveland var 41 stigi yfir í hálfleik, 31-72, sem er met í úrslitakeppninni.

LeBron James var í miklum ham í nótt; skoraði 30 stig, tók fjögur fráköst, gaf sjö stoðsendingar, stal fjórum boltum og varði þrjú skot. Þetta var níundi leikurinn í úrslitakeppninni í röð þar sem James skorar 30 stig eða meira.

„Ég er náungi sem lifir í augnablikinu. Liðið er á frábærri siglingu og ég er ánægður að vera hluti af því,“ sagði James eftir leikinn í nótt.

Kyrie Irving skoraði 23 stig fyrir Cleveland og Kevin Love var með 21 stig og 12 fráköst.

Hjá Boston var fátt um fína drætti. Isiah Thomas skoraði aðeins tvö stig, bæði af vítalínunni, í fyrri hálfleik en lék ekkert í þeim seinni vegna meiðsla.

Jaylen Brown var stigahæstur í liði Boston með 19 stig. Avery Bradley skoraði 13 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×