Lífið

Dwayne Johnson og Tom Hanks hyggjast bjóða sig fram í næstu forsetakosningum

Anton Egilsson skrifar
Leikararnir Dwayne Johnson og Tom Hanks í þættinum Saturday Night Live í gær.
Leikararnir Dwayne Johnson og Tom Hanks í þættinum Saturday Night Live í gær. Skjáskot
Bandaríski leikarinn Dwayne Johnson stjórnaði þættinum Saturday Night Live á NBC sjónvarpsstöðinni um helgina en í þættinum kvaðst hann ætla að bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna í næstu kosningum sem fram fara árið 2020.

„Mikið af fólki hefur sagt mér að ég ætti að bjóða mig fram til forseta. Frá og með kvöldinu í kvöld þá er ég í framboði til forseta Bandaríkjanna.“

Johnson sagðist þá vilja fá leikarann Tom Hanks með sér sem varaforseta og tók Hanks vel í þá hugmynd.

„Dwayne, ég gæti hreinlega ekki hafnað þessu boði,“ sagði Hanks og bætti við: „Ég myndi fá meirihluta atkvæða þar sem ég barðist í seinni heimsstyrjöldinni, í tíu mismunandi kvikmyndum.“

Johnson var borubrattur og sagðist hreinlega of hæfur til að gegna embættinu.

„Í fortíðinni hefði ég aldrei boðið fram til forseta, ég var smeykur um að ég væri ekki nógu hæfur. En sannleikurinn er sá núna að ég held að ég sé aðeins of hæfur.“

Að öllum líkindum er aðeins um góðlátlegt grín að ræða hjá köppunum enda eru þeir þekktir sprelligosar. Það mun þó tíminn einn leiða í ljós.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×