Skoðun

Árangur í Vestur-Afríku

Ragnar Schram skrifar
Frá 2012 hefur örlítið brot af skattgreiðslum landsmanna farið í að hjálpa sárafátækum einstæðum foreldrum í Gíneu Bissá til fjárhagslegs sjálfstæðis. Fyrir vikið fá börn nú menntun sem áður sátu heima og börn sem áður fengu bara eina máltíð á dag fá nú oftar að borða.

Þessi hjálp var veitt undir merkjum Fjölskyldueflingar SOS Barnaþorpanna og fjármögnuð að fullu frá Íslandi. Auk framlags frá hérlendum stjórnvöldum (73%) studdu Fjölskylduvinir SOS hér á landi (27%) verkefnið með mánaðarlegum framlögum sínum.

Góður árangur af verkefninu

Verkefninu lauk í lok mars sl. og verður að segjast eins og er að það gekk vel. Það sýnir m.a. úttekt sem unnin var af óháðum íslenskum sérfræðingi.

Alls fengu 400 börn og foreldrar þeirra aðstoð í formi fræðslu, matvælagjafa, skólagjalda, heilbrigðisþjónustu, ráðgjafar o.fl. sem nýttist fjölskyldunum á leið þeirra til fjárhagslegs sjálfstæðis. Áður gátu foreldrarnir ekki séð fyrir daglegum þörfum barna sinna en að verkefni loknu gátu tveir þriðju foreldra mætt þeim þörfum óstuddir.

Íslendingar hækki framlagið

Íslendingar geta því gengið frá þessu verkefni með bros á vör, vitandi að framlög þeirra leiddu til góðs og hjálpuðu áþreifanlega börnum sem liðu skort vegna sárafátæktar. Og í nafni gagnsæis og trausts geta allir nálgast skýrslu áðurnefndrar úttektar auk ársreikninga samtakanna á vefsíðunni sos.is.

Í ljósi þess að Íslendingar hafa í áraraðir stutt markmið Sameinuðu þjóðanna um 0,7% framlag af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu er það von mín að Íslendingar, með stjórnvöld í broddi fylkingar, sýni hug sinn í verki og hækki hlutfallið úr þeim 0,26% sem við nú virðumst föst í.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×