Innlent

Samtök ferðaþjónustunnar: Fjöldatölur og gistinætur haldast ekki í hendur

Birgir Olgeirsson skrifar
Í ályktun stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar er bent á að farþegar í flugstöð Leifs Eiríkssonar séu í sumum tilvikum tvítaldir
Í ályktun stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar er bent á að farþegar í flugstöð Leifs Eiríkssonar séu í sumum tilvikum tvítaldir Vísir/Anton Brink
Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar hefur sent frá sér ályktun þar sem því er haldið fram að að þær fjöldatölur sem liggja til grundvallar fyrirætlunum stjórnvalda gefi alls ekki raunsanna mynd.

Í fjármálaáætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir umtalsverðum skattahækkunum í formi virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna en stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar segir rökin fyrir þessum skattahækkunum vera öðrum fremur þau að til landsins komi of mikið af ferðamönnum og að þann vöxt þurfi að tempra.

Í ályktun stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar er bent á að farþegar í flugstöð Leifs Eiríkssonar séu í sumum tilvikum tvítaldir og þá er vísað í frétt sem birtist á ferðamálavefnum Túristi í liðinni viku um að fjöldi farþega hingað til lands haldist ekki í hendur við fjölda gistinátta.

Á eins veikum grunni og dæmin sanna er nú verið að taka stórar ákvarðanir, segir í ályktun stjórnarinnarVísir/Anton Brink
„Á eins veikum grunni og dæmin sanna er nú verið að taka stórar ákvarðanir,“ segir í ályktun stjórnarinnar og er þá átt við að stjórnvöld ætli sér að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna út frá tölum sem gefa ekki raunsanna mynd af þeim fjölda ferðamanna sem koma hingað til lands

„Hjá Alþingi liggur fyrir risastór ákvörðun er snýr að ferðaþjónustunni með áformum um að hækka virðisaukaskatt á atvinnugreinina sem nemur um 20 milljörðum króna á ári. Rökin fyrir þessum skattahækkunum eru öðrum fremur þau að til landsins komi of mikið af ferðamönnum. Ljóst er að þær fjöldatölur sem liggja til grundvallar fyrirætlunum stjórnvalda gefa alls ekki raunsanna mynd. Ákvarðanir þurfa að byggja á lykiltölum eins og fjölda gistinátta, meðaltekna af hverjum ferðamanni, dreifingu ferðamanna um landið og afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu rétt eins og gert er í þróuðum ferðaþjónustulöndum. Enn og aftur ítreka SAF mikilvægi þess að faglegar og óyggjandi greiningar liggi til grundvallar áður en jafn afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar, eins og til stendur, gagnvart einni mikilvægustu atvinnugrein landsmanna,“ segir í ályktuninni sem má lesa í heild hér fyrir neðan:

Stórar ákvarðanir teknar á röngum forsendum?

Samkvæmt talningu Ferðamálastofu fjölgaði ferðamönnum hingað til lands um rúmlega helming á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Fjöldi gistinátta heldur hins vegar engan vegin í við þessa fjölgun þar sem gistinóttum hefur fjölgað um 26% á sama tímabili.

Á árunum 2015 og 2016 var samhljómur á milli fjöldi þeirra erlendu ferðamanna sem sóttu landið heim og fjölda gistinátta. Á fyrstu mánuðum þessa árs hefur hins vegar orðið mikil breyting á. Hvað veldur?

Fjöldatölur og gistinætur haldast ekki í hendur 

Í frétt hjá Túrista fyrir helgi kom fram að á fyrsta ársfjórðungi fjölgaði t.a.m. ferðamönnum frá Kanada um 185% á milli ára. Hins vegar fækkaði gistinóttum Kanadamanna sem gistu á hótelum hér á landi um 12% á sama tímabili. Hvað franska ferðamenn varðar þá fjölgaði þeim um 60% á milli ára en gistinóttum einungis um 14%. Sömu sögu er að segja af Þjóðverjum sem sóttu landið heim, en þeim fjölgaði um 70% á milli ára en gistinóttum einungis um 14%.

Fjöldatölur segja ekki alla söguna 

Það sem er sláandi er sú staðreynd að þeir farþegar sem millilenda á Íslandi á ferð sinni um hafið geta ekki innritað sig alla leið nema samningar á milli flugfélaga um slíkt liggi fyrir sem er þó undantekning frekar en hitt. Mikil aukning hefur orðið á fjölda flugfélaga sem bjóða uppá flug til Íslands síðustu misseri og því má ætla að þeim ferðamönnum fari fjölgandi sem fara aldrei út úr Leifsstöð þó svo að þeir þurfi að fara út úr komusalnum með töskur sínar og innrita sig aftur fyrir seinni legginn á leið sinni yfir hafið. Þannig fara þeir í gegnum vopnaleit en þar fer talning á fjölda ferðamanna til Íslands fram. 

Aðrar skýringar sem Samtök ferðaþjónustunnar hafa ítrekað bent ár eru þær að ferðamenn leita í meiri mæli í heimagistingu hverskonar sem ekki eru inni í fjölda gistinótta. Slík tegund af gistingu er oftar en ekki hluti af skuggahagkerfi sem fer stækkandi og þarf að uppræta. Þá má ekki gleyma þeim hópi útlendinga, sem er búsettur á Íslandi til lengri eða skemmri tíma, m.a. vegna starfa sinna en erlendu starfsfólki hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarið.

Horfa þarf til gistinátta, meðaltekna og afkomu fyrirtækja við ákvarðanatöku

Eins og reglulega hefur komið fram eru tölfræðiupplýsingar og hverskonar greiningar um ferðaþjónustuna því miður af afar skornum skammti. Í dag vitum við ekki nægjanlega mikið um þessa mikilvægu atvinnugrein. Á eins veikum grunni og dæmin sanna er hins vegar nú verið að taka stórar ákvarðanir.

Hjá Alþingi liggur fyrir risastór ákvörðun er snýr að ferðaþjónustunni með áformum um að hækka virðisaukaskatt á atvinnugreinina sem nemur um 20 milljörðum króna á ári. Rökin fyrir þessum skattahækkunum eru öðrum fremur þau að til landsins komi of mikið af ferðamönnum. Ljóst er að þær fjöldatölur sem liggja til grundvallar fyrirætlunum stjórnvalda gefa alls ekki raunsanna mynd. Ákvarðanir þurfa að byggja á lykiltölum eins og fjölda gistinátta, meðaltekna af hverjum ferðamanni, dreifingu ferðamanna um landið og afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu rétt eins og gert er í þróuðum ferðaþjónustulöndum. Enn og aftur ítreka SAF mikilvægi þess að faglegar og óyggjandi greiningar liggi til grundvallar áður en jafn afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar, eins og til stendur, gagnvart einni mikilvægustu atvinnugrein landsmanna.

Tryggjum réttar ákvarðanir

Ljóst er að bæta þarf úr talningu ferðamanna í Leifsstöð. Þeim farþegum sem millilenda á Keflavíkurflugvelli á leið yfir hafið fer fjölgandi og eru mikil sóknarfæri í að gera flugvöllinn að enn öflugri alþjóðlegri flugmiðstöð.

Það gengur hins vegar ekki að horfa eingöngu á eina tölu – heildarfjölda þeirra ferðamanna sem sækja Leifsstöð heim. Horfum til þeirra sem sækja Ísland heim!

21. maí 2017

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×