Enski boltinn

Glenn Hoddle: Gylfi bestur utan efstu sex liðanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson kom að 22 mörkum Swansea með beinum hætti.
Gylfi Þór Sigurðsson kom að 22 mörkum Swansea með beinum hætti. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni, er besti leikmaður deildarinnar fyrir utan þá sem spila með sex efstu liðunum að mati Glenn Hoddle, fyrrverandi landsliðsþjálfara Englands.

Gylfi hefur verið orðaður við endurkomu til Tottenham undanfarnar vikur en Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri liðsins, var sagður í Daily Mail fyrir helgi vera að íhuga 25 milljóna punda tilboð í íslenska landsliðsmanninn.

Hafnfirðingurinn spilaði í tvö tímabil með Tottenham en fór aftur til Swansea til að spila meira en þar hefur hann blómstrað og er í dag einn allra besti miðjumaður deildarinnar.

„Fyrir utan þá sem spila með sex efstu liðunum er Gylfi sá leikmaður sem er með mestu tæknina og er mest skapandi. Hann skoraði níu mörk og lagði upp þrettán í Swansea-liði sem var í vandræðum. Hann er mikill spyrnusérfræðingur og getur notað báða fætur,“ segir Hoddle í pistli sínum í Daily Mail þar sem hann fer yfir þá ellefu leikmenn sem fá ekki nógu mikið lof í ensku úrvalsdeildinni.

„Þegar Gylfi spilaði síðast fyrir Tottenham var hann á vinstri kantinum í 4-4-2 en þar nærðu aldrei því besta út úr honum. Núna er hann miklu betri leikmaður en hann var fyrir þremur árum.“

„Reyndar væri Gylfi fullkominn fyrir Tottenham eins og liðið spilar í dag með Dele Alli og Christian Eriksen. Gylfi gæti spilað á báðum vængjunum og á miðjunni fyrir Tottenham,“ segir Glenn Hoddle.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×