Skoðun

Íslensk framleiðsla til framtíðar

Garðar Freyr Vilhjálmsson skrifar
Mig dreymdi í nótt að ég væri kominn inn í nýsköpunar-/frumkvöðlasetur mjólkuriðnaðarins á Íslandi sem sett var upp á svipaðan hátt og sjávarklasinn fyrir sjávarútveginn og landbúnaðarklasinn fyrir landbúnaðinn.

Auðhumla svf. og Matís ohf. hafa nú bætt í og ætla að styðja við frumkvöðlastarfsemi. Hér er á ferðinni flott framtak og vonandi verkefni sem á eftir að vinda upp á sig, mjólkuriðnaðinum til framdráttar, því við getum gert enn betur.

Í Danmörku er horft í hvern millilítra af mysu og hvert gramm af osti sem fellur frá við framleiðslu, en ef það nýtist ekki til manneldis fer það í svínafóður. Það er hins vegar ekki sjálfsagt að hægt sé að gera verðmæti úr aukaafurðum en frumkvöðlar á Íslandi hafa sýnt að möguleikarnir eru fyrir hendi sem sést t.d. á því hvernig andvirði þorsks hefur tvöfaldast á stuttum tíma.

Við höfum alla burði til að gera betur og lykillinn að því er samvinna. Nú þegar er unnið að því að vinna úr þeim aukaafurðum sem falla til á Íslandi í mjólkurgeiranum. Próteindrykkurinn Hleðsla er t.a.m. afrakstur slíkrar vinnu og nokkur nýsköpunarfyrirtæki vinna með stuðningi MS og KS að aukinni nýtingu mysu og próteins sem núna fer forgörðum. Við getum þó gert betur ef fleiri aðilar horfa á nýsköpun í greininni.

Í Danmörku kostar meira að framleiða úr mjólk

Verð á mjólkurvörum er svipað á Íslandi og í Danmörku og mikið kapp lagt á að halda framleiðslukostnaði niðri hér á landi þrátt fyrir lítinn markað sem á ársgrundvelli nemur um 150 milljón lítrum. Árið 2016 vigtaði Arla í Danmörku t.d inn 3911 milljón lítra af mjólk og á eftir þeim kemur Thise mejeri/ Mejeriet Dybbækdal med 96 milljón lítra.

Ég gerði smá verðsamanburð á þremur vörum í apríl og miðaði útreikninginn við gengið 15,71 (bæði danskar vörur og hrámjólkurverð). Upplýsingar um verð í Danmörku koma frá Fakta Odense og upplýsingar um verð á Íslandi koma frá verslun Kaupfélags Skagfirðinga Hofsósi.

Klovborg ostur frá Arla kostar 77,07 dk.kr./kg eða 1210 ísl.kr./kg en Sveitabiti kostar 1598 kr./kg. Til að framleiða 1 kg. af osti þarf um 10 lítra af mjólk. Danskir bændur fá um 2,569 dk.kr. fyrir hvern lítra eða 40,36 ísl.kr. en íslenskir bændur fá 85 kr./l. Þar með borgar Arla 403,6 ísl.kr fyrir mjólk í sinn ost en á Íslandi kostar mjólkin 850 kr. í ostinn. Þarna munar 446,4 kr. á mjólkinni en munurinn á söluverði er 388 kr./kg. af osti. Jú, varan er ódýrari í Danmörku en samt sem áður er verið að halda framleiðslukostnaði niðri og borga vel fyrir mjólkina til bænda á Íslandi.

Lurapac smjör sem er stolt Dana er á 91, dk.kr./kg eða 1442,18 ísl.kr./kg meðan íslenska smjörið er á 878 kr./kg. Ódýrara smjör var þó til á 57,5 dk.kr./kg eða 903,33 ísl.kr./kg.?

Sødmælk 3,5% frá Arla kostar 6,95 dk.kr./l eða 109,18 ísl.kr/l en Nýmjólk kostar 149 kr./l á Íslandi sem er 39,82 kr. munur en eins og áður er munur á hráefnisverði mjólkur 44,64 ísl.kr./l.

Bóndi á Íslandi er því að fá 53-57% af verði vörunnar út í búð meðan danski bóndinn fær 31-36%.

Verum ekki hrædd við að standa með okkar framleiðslu.

Ég heimsótti nýlega mjólkursamlag hjá Arla sem heittir Kruså mejeri og stendur nærri þýsku landamærunum. Kruså merjeri framleiðir 29 þúsund tonn af feta-/salatosti á ári, allt úr danskri mjólk. Hægt er að fá ódýrari mjólk frá Þýskalandi en fyrir þeim snýst það um að kaupa innlenda framleiðslu eða bíða álitshnekki. Í augum danskra neytenda er dönsk framleiðsla einfaldlega best.

Njótum þess sem við höfum en reynum samt sem áður að gera enn betur með innlent hráefni að leiðarljósi.

Getum við það? Já við getum það og það eru sannarlega tækifæri fyrir hendi!

Höfundur er nemi í mjólkurfræði við Kold College og starfsmaður MS Búðardal.




Skoðun

Sjá meira


×